Ríkið fjármagni að hluta

Floti Icelandair stendur að mestu óhreyfður þessa dagana.
Floti Icelandair stendur að mestu óhreyfður þessa dagana. mbl.is/Árni Sæberg

Skynsamlegt er að ríkið taki þátt í að fjármagna að hluta uppsagnarfrest starfsmanna Icelandair. Þetta segir Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Blóðugar uppsagnir eru fyrirhugaðar hjá fyrirtækinu um mánaðamótin og telur Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, ekki ólíklegt að allt að 90% starfsfólks missi vinnuna.

Formönnum stéttarfélaga hefur þegar verið tilkynnt um uppsagnirnar, en þeir eru bundnir trúnaði þar til félagsmenn þeirra fá uppsagnartíðindin í hendurnar, sem gera má ráð fyrir að verði í fyrsta lagi á morgun, þriðjudag. Um 92% starfsmanna Icelandair eru á hlutabótum, þar sem félagið greiðir 25% launakostnaðar en ríkið 75% á móti. Sé starfsmönnum sagt upp þarf félagið hins vegar að greiða allan launakostnaðinn meðan á uppsagnarfresti stendur, en hann er jafnan þrír mánuðir, og hleypur launakostnaður á milljörðum króna að meðtöldum launatengdum gjöldum.

„Ömurleg“ staða

Óli Björn segir það gilda jafnt um Icelandair sem önnur félög að skynsamlegt sé að skoða hvort ekki sé allra hagur að ríkið aðstoði félög í þessum aðstæðum, sem hafa orðið af öllum tekjum. Hinn kosturinn væri að félögin færu í þrot, með þeim afleiðingum að ríkið yrði hvort eð er að greiða starfsmönnum atvinnuleysisbætur. „Þetta er alveg ömurlegt sama hvernig fer,“ segir hann.

Aðspurður í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Óli Björn að sér hugnist þó ekki sú hugmynd að ríkið komi inn sem hluthafi í Icelandair.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert