VR og SA hefja formlegar viðræður

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. mbl.isHari

VR hefur ákveðið að hefja formlegar viðræður við Samtök atvinnulífsins um leiðir til að verja lífskjarasamninginn, kaupmátt og störf vegna versnandi ástands á vinnumarkaði.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Markmiðið er að finna leiðir til verja stöðu fólks og fá stjórnvöld að borðinu.

„Við getum ekki horft upp á þá skelfilegu stöðu sem uppi er á íslenskum vinnumarkaði án þess að taka þetta skref og ræða þríhliða lausnir,“ skrifar Ragnar Þór.

„Það er dapurlegt að aðgerðapakkar ríkisins skuli ákveðnir af fámennum hópi í stað víðtækara samráðs aðila vinnumarkaðarins og stjórnarandstöðunnar. Sérstaklega í ljósi þess hversu alvarleg staðan er og þeirrar staðreyndar að allar ákvarðanir og skuldbindingar hafa mikil áhrif á lífskjör almennings og komandi kynslóðir.“

Með VR í þessari vegferð, að sögn Ragnars Þórs, eru Framsýn stéttarfélag og Verkalýðsfélag Akraness. Félögin ásamt Landssambandi verslunarmanna fara með umboð um 47 þúsund félagsmanna. Von er á því að fleiri félög bætast í hópinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert