52 störf í hættu

Mikill taprekstur hefur verið á erlendum starfsstöðvum Valitors.
Mikill taprekstur hefur verið á erlendum starfsstöðvum Valitors. Ljósmynd/Valitor

Fimmtíu og tveir starfsmenn greiðslumiðlunarfyrirtækisins Valitors í Danmörku og í Bretlandi eiga á hættu að missa vinnu sína, en fyrirtækið hefur tilkynnt að í undirbúningi sé að leggja niður alrásarþjónustu (e. Omni Channel) í Danmörku og Bretlandi.

Þetta kemur fram í bréfi sem sent var til starfsmanna fyrirtækisins í gær og Morgunblaðið hefur undir höndum. Alrásarþjónusta hefur samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins verið leiðandi vara sem Valitor hefur boðið á þessum mörkuðum. Mikill taprekstur hefur verið á starfseminni um hríð.

Í bréfinu kemur fram að aðgerðirnar hafi ekki áhrif á starfsfólk Valitors á Íslandi. Þá segir að komi til þessara breytinga muni félagið hjálpa viðskiptavinum sínum í löndunum að finna aðrar lausnir. Á meðal viðskiptavina eru skemmtigarðurinn Tívolí, tískukeðjan Zara og kvikmyndahúsakeðjan Nordisk Film Biografer.

Þegar Valitor tilkynnti um hagræðingaraðgerðir í janúar sl. var 51 starfsmanni Valitors í Bretlandi og í Danmörku sagt upp störfum, en til viðbótar misstu níu starfsmenn á Íslandi vinnuna. tobj@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert