Stærsta hópuppsögn sögunnar

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hópuppsögn Icelandair, þar sem rúmlega 2.000 starfsmönnum verður sagt upp frá mánaðamótum, er sú stærsta í sögunni. Þetta segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Uppsagnir Icelandair ná til allra hópa innan félagsins en uppsagnir eru þó flestar hjá flugfreyjum og flugmönnum. Tæplega 900 flugfreyjum er sagt upp og um 420 flugmönnum. Samkvæmt upplýsingum mbl.is heldur 41 flugfreyja starfi sínu og 26 flugmenn.

Unnur segir að stór hluti þeirra sem missa starf sitt í hópuppsögninni hafi þegar verið á hlutabótum. Hún ráðleggur fólki að skoða stöðu sína. „Við vonum bara að þetta líði sem hraðast hjá. Það verður bara að hugsa þetta þannig.“

Stofnunin bætir við sig á fjórða tug starfsmanna

Mikið hefur mætt á Vinnumálastofnun undanfarnar vikur, en þar eru 53.000 manns á atvinnuleysisbótum, fleiri en nokkru sinni fyrr, en þar af eru 35.000 á hlutabótaleiðinni en um 18.000 í almenna kerfinu. Unnur segir að stofnunin sé á fullu í ráðningum vegna aukinna umsvifa, en að hún hafi fengið leyfi fyrir ráðningu 30 til 35 starfsmanna til viðbótar við þá sem fyrir eru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert