Ný áætlun Uppbyggingarsjóðs EES um endurnýjanlega orku, umhverfis- og loftslagsmál var kynnt á ráðstefnu í Varsjá í Póllandi í byrjun mars með þátttöku forseta Póllands og Íslands, auk ráðherra frá Póllandi, Íslandi og Noregi.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Þarna er í fyrsta sinn sett er af stað ein áætlun um loftslags-, umhverfis- og orkumál í Póllandi á vegum Uppbyggingarsjóðs EES. Unnið hefur verið að undirbúningi og skipulagi áætlunarinnar í nokkur ár á meðal Póllands, Uppbyggingarsjóðsins í Brussel, Noregs og Íslands og hefur Orkustofnun annast undirbúning og skipulag fyrir hönd Íslands.
Áætlunin er einnig sú allra stærsta er varðar loftslags-, umhverfis- og orkumál á vegum Uppbyggingarsjóðsins. 140 milljónum evra verður varið til áætlunarinnar og auk þess mun Pólland leggja til sömu upphæð í formi lána og styrkja. Heildarfjármagn verður því 280 milljónir evra eða um 40 milljarðar króna, að því er segir í tilkynningunni.
Umfang verkefnanna getur þó verið mun meira eða allt að 65 milljarðar króna þar sem styrkir Uppbyggingarsjóðsins eru einungis hluti af fjárhæð verkefna.