10 mánaða dómur fyrir milljóna fjárdrátt frá ADHD-samtökunum

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Fyrrverandi framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna hefur verið dæmdur í héraðsdómi í 10 mánaða fangelsi fyrir að hafa dregið sér 9,2 milljónir króna af fjármunum félagsins og nýtt það í eigin þágu. Maðurinn, sem heitir Þröstur Emilsson, var framkvæmdastjóri samtakanna frá 2013 fram á mitt ár 2018 þegar málið kom upp. Var honum þá vikið úr starfi og kærði stjórn félagsins brot hans til lögreglu.

Þröstur, sem sjálfur varði sig í dómsmálinu, játaði brot sín skýlaust. Fram kemur í ákæru málsins að hann hafi dregið sér fjármunina með að millifæra á eigin reikning og greiða með debet og kreditkorti í verslunum. Þá millifærði hann einnig upphæðir upp á hundruð þúsunda inn á veitingaþjónustu, reikning háskóla og greiddi hundrað þúsund krónur í styrk til Viðreisnar, en Þröstur var í þriðja sæti á lista flokksins í bæjarstjórnarkosningum flokksins árið 2018.

Meðal úttekta á kreditkorti félagsins eru ferðalög erlendis, líkamsrækt, flugeldar og ýmiskonar verslun bæði innanlands og erlendis.

Var hann sem fyrr segir dæmdur í 10 mánaða fangelsi, þar af sjö mánuði skilorðsbundna. Þá var hann dæmdur til að greiða samtökunum 9,2 milljónir auk vaxta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert