Æsa Guðbjörg Guðmundsdóttir er 100 ára í dag. Hún fæddist á Egilsstöðum í Villingaholtshreppi 29. apríl 1920 og ólst þar upp á hefðbundnu sveitaheimili, sú þriðja yngsta í hópi tíu systkina sem öll eru nú látin.
Úr þessum systkinahópi er Æsa önnur til að ná hundrað ára aldri. Foreldrar hennar voru Guðmundur Ágúst Eiríksson bóndi og Kristín Gísladóttir húsfreyja.
„Eins og þess tíma var háttur sótti Æsa Guðbjörg farskóla að Forsæti, Kolsholti og Villingaholti í sömu sveit fram að fermingu, en um aðra menntun var ekki að ræða,“ segir Kristín Gunnarsdóttir, bróðurdóttir afmælisbarnsins, í Morgunblaðinu í dag.
Æsa flutti með fjölskyldu sinni á Selfoss 1954, er foreldrar hennar brugðu búi á Egilsstöðum, og hefur síðan búið á Selfossi. Þar hélt hún heimili með foreldrum sínum, en lengst af með Guðjóni, bróður sínum, en hann lést 2001. Þau Guðjón bjuggu um árabil í sambýli með Kristínu og hennar fjölskyldu. Síðan 2009 hefur Æsa búið á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi.