Sundabrautarframkvæmd skapi 1.900-2.400 störf

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að sundabrautaverkefnið gæti skapað um 1.600 til 2.000 ársverk hja verktökum og 3-400 ársverk hjá öðrum í undirbúningi, hönnun, umsjón og eftirliti. Þetta kemur fram í færslu hjá honum á Facebook, en fyrr í dag var greint frá því að starfshópur hefði verið skipaður til að endurmeta og skoða tvo fýsilega kosti um legu Sundabrautar og gera tillögu um framtíðarlausn sem fest yrði í skipulagi.

Engin tímasetning liggur þó fyrir hvenær af slíkri framkvæmd gæti orðið, en starfshópurinn á að skila niðurstöðu sinni fyrir 31. ágúst á þessu ári.

Í færslunni segir Sigurður að verkefnið þokist áfram og að Sundabraut muni stytta vegalengdina frá miðbæ Reykjavíkur upp á Kjalarnes um allt að 9 kílómetra og létta á umferð á Gullinbrú og Ártúnsbrekku.

Þeir kostir sem eru nú til skoðunar eru jarðgöng yfir í Gufunes og lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík. Fyrri kosturinn er framkvæmanlegur án þess að hafa áhrif á starfsemi Sundahafnar, samkvæmt skýrslu sem fyrri starfshópur um framkvæmdina skilaði í júlí í fyrra.. Fram kom í skýrslunni að reynist mögulegt að færa starfsemi Sundahafnar væri lágbrú ódýrasti kosturinn og sá sem hentaði flestum ferðamátum.

Hugmyndir um Sundabraut.
Hugmyndir um Sundabraut. Tölvuteiknuð mynd/ONNO
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert