Útilokar ekki aðkomu ríkisins

Bogi segir að mörg tækifæri muni bíða Icelandair þegar óvissuástandinu …
Bogi segir að mörg tækifæri muni bíða Icelandair þegar óvissuástandinu lýkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forstjóri Icelandair útilokar ekki aðkomu ríkisins að rekstri félagsins á þessum miklu óvissutímum sem fram undan eru vegna kórónuveirufaraldursins, og segir hana raunar óumflýjanlega dragist ástandið á langinn.

Þetta kom fram í máli Boga Nils Bogasonar, sem var gestur í Kastljósi í kvöld. Þar sagðist hann sjálfur aldrei hafa verið hrifinn af miklum ríkisafskiptum, en að verið væri að horfa til þess að safna hlutafé og tækist það kæmi ríkið hugsanlega með lán til að styðja félagið á móti. Samráð sé í gangi en engin vilyrði komin á borðið.

Það sæist í löndunum í kring um okkur, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, að stjórnvöld væru að hjálpa félögunum í gegnum óvissuna. „Þau komast ekki í gegnum þetta án aðstoðar og ef þetta dregst á langinn þá verður það að koma til,“ sagði Bogi.

Félagið sagði í gær upp 2.000 starfsmönnum og segir Bogi að þar af hafi verið fækkað um einn í framkvæmdastjórn og 20 í stjórnendahóp. Þeir sem eftir væru væru flestir á hlutabótaleið, en að þeir sem enn væru í fullu starfi hefðu allir tekið á sig 20 til 30% launalækkun.

Aðspurður sagði Bogi að hlutfall launakostnaðar hjá fyrirtækinu væri um 30% og talsvert hærri en hjá flestum öðrum flugfélögum. Hins vegar gerði Icelandair meira með sínu starfsfólki en önnur félög og að Icelandair sæi tækifæri í að gera breytingar á samningum til að ná betri nýtingu á starfsfólki og styrkja þannig reksturinn.

Sagðist Bogi hafa mikla trú á viðskiptalíkani Icelandair sem hefði sannað sig í gegnum árin og að í því fælust góð fjárfestingarfyrirtæki. Þá hefði hann fulla trú á að félagið kæmist í gegnum þá óvissutíma sem fram undan væru, og að þeim loknum biðu félagsins mikil tækifæri til að auka enn markaðshlutfall sitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert