4.210 hjá 51 fyrirtæki hafa misst vinnuna

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls hefur 51 fyrirtæki sent inn tilkynningu um hópuppsögn í apríl og eru 4.210 einstaklingar á bak við þær tilkynningar, þar af 2.140 frá Icelandair.

Þetta segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, við mbl.is. Mögulega mun eitthvað bætast við þessa tölu og verður farið betur yfir það á mánudaginn.

Nánast öll úr ferðaþjónustunni

Í gær var tilkynnt um uppsagnir sjö til átta hundruð starfsmanna og hefur fjölgað um rúmlega eitt þúsund síðan í gær, fyrir utan starfsmenn Icelandair.

Unnur segir þennan fjölda ekki koma mjög á óvart miðað við stöðuna sem er uppi. Nánast öll fyrirtækin sem tilkynntu um hópuppsögn koma úr ferðaþjónustunni og hafa orðið fyrir mjög miklu tekjufalli. „Það kemur ekki á óvart að þau vilji reyna að minnka rekstrarkostnaðinn eins mikið og þau geta.“

Húsnæði Vinnumálastofnunar.
Húsnæði Vinnumálastofnunar. mbl.is/Hari

Þurfa að borga 55 þúsund manns

Alls eru 18 þúsund manns á atvinnuleysisskrá í almenna kerfinu hjá Vinnumálastofnun og 37 þúsund í minnkuðu starfshlutfalli. Fólkið sem fær núna uppsögn fer ekki á atvinnuleysisskrá fyrr en í ágúst, nema ástandið batni, að sögn Unnar. „Vonandi rætist úr þá og við fáum ekki allt þetta fólk á skrá.“

Hún segir mánaðamótin núna vera þau þyngstu sem Vinnumálastofnun hefur upplifað. Greiðslum verður dreift á nokkra daga. „Við erum að vinna eins hratt og við mögulega getum. Við biðjum fólk um að sýna okkur skilning,“ segir hún en samtals fá um 55 þúsund manns greiðslur um mánaðamótin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert