Guðmundur Magnússon
Að meðaltali dóu 46 Íslendingar á viku fyrstu fimmtán vikur áranna 2017 til 2019 samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Fyrstu fimmtán vikur ársins 2020 dóu aðeins færri eða 44 að meðaltali á hverri viku.
Kórónuveirufaraldurinn hefur því ekki fjölgað dauðsföllum hér á landi eins og gerst hefur í fjölmörgum öðrum löndum. Að jafnaði dóu flestir í aldursflokknum 85 ára og eldri á tímabilinu 2017 til 2019. Það var einnig algengasti aldursflokkur þeirra sem dóu fyrstu fimmtán vikur ársins 2020. Tíðasti aldur látinna fyrstu fimmtán vikur 2020 var 83 ár en 87 ár fyrir sömu vikur áranna 2017 til 2019.
Ekki náðist í Ölmu Möller landlækni í gær til að bera undir hana þessar tölur um fjölda dauðsfalla. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á blaðamannafundi almannavarna í gær að heildartölur andláta þyrfti að skoða mjög vel. Engar sterkar vísbendingar væru um það núna að umframdauði væri í samfélaginu af völdum COVID-19-sjúkdómsins. Hann tók fram að miklar sveiflur væru á milli ára.
Hagstofan hefur einnig birt nýjar tölur um dánarmein Íslendinga yfir tíu ára tímabil frá 2008 til 2017. Flestir dóu úr blóðrásarsjúkdómum eða 7.065. Það svarar til rúmlega þriðjungs allra látinna (34%). Þar á eftir lést 6.031 úr æxlum eða 29% allra látinna. Alls létust 1.083 úr sjúkdómum í taugakerfi (9,5%) og 1.812 úr sjúkdómum í öndunarfærum (8,7%). Fæstir dóu vegna svokallaðra ytri orsaka (slys o.þ.h.) eða 1.331 sem svarar til 6% af heildarfjölda látinna yfir tímabilið 2008-2017.