Gert að greiða Slayer 20 milljónir króna

Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice 2018.
Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Skipuleggjandi tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice var í gær dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða umboðsfyrirtæki bandarísku hljómsveitarinnar Slayer rúmlega 133 þúsund dali, um 20 milljónir króna í eftirstandandi þóknun fyrir að spila á hátíðinni í júní 2018. 

K2 Agency Limited, umboðsfyrirtæki Slayer, höfðaði mál á hendur Secret Solstice Productions ehf. sem hélt utan um hátíðina 2018 og Friðriki Ólafssyni, forsvarsmanni félagsins.

Dómurinn dregur ekki í efa að strax 9. febrúar 2018 hafi verið samið um að Solstice myndi greiða Slayer samtals 250 þúsund Bandaríkjadali fyrir að koma fram á hátíðinni, en málsaðila greindi á um hvort að með greiðslu Secret Solstice á 160 þúsund dölum og með því að sjá um sviðsetningu hefði umsamin þóknun verið að fullu greidd.

Þá greindi málsaðila á um efnistök tölvuskeytis sem Friðrik sendi umboðsfyrirtækinu í september 2018, þar sem hann sagðist myndu selja tvær fasteignir til að gera persónulega upp skuldina við hljómsveitina.

Friðrik ritaði umboðsfyrirtækinu tölvupóst 13. september 2018 þar sem hann sagðist hafa, til að leysa málið, sett á sölu tvær fasteignir sem hann ætti. Hann gerði ráð fyrir að önnur seldist fyrir lok mánaðar og þá myndi hann persónulega greiða Slayer fyrir að hafa komið fram á Solstice-hátíðinni.

„when that is done I will pay slayer personally for solstice,“ hefur dómurinn upp úr umræddu tölvuskeyti Friðriks.

Höfuðágreiningur málsins liggur í því hvernig beri að túlka efni þessa skeytis, en Friðrik hélt því fram að hann hefði ekki gefið skuldbindandi loforð í umræddum tölvupósti og hefði því ekki stofnast ábyrgð á greiðslu skuldarinnar. Greiðslan sem nefnd var í skeytinu barst aldrei umboðsfyrirtækinu en samkvæmt framlögðum gögnum seldi Friðrik aðra af umræddum eignum í desember 2018.

Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice 2018.
Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Dómurinn féllst hins vegar ekki á rökfærslu Friðriks og taldi að tölvupósturinn sýndi fram á að hann teldi kröfu umboðsfyrirtækisins réttmæta. Þannig féllst dómurinn ekki á að tilefni væri til að beita svokallaðri andskýringarreglu og skýra efni tölvuskeytisins umboðsfyrirtækinu í óhag.

Þá taldi dómurinn heldur engan vafa leika á því að Solstice Productions hefði samþykkt í febrúar 2018 að greiða Slayer 250 þúsund dali alls fyrir að koma fram á Secret Solstice.

Dómurinn komst að endingu að þeirri niðurstöðu að Friðrik skuli greiða K2 Agency Limited kröfuna: 133.273,45 Bandaríkjadali, eða rétt tæpar 20 milljónir króna, auk 2,3 milljóna króna í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert