Eftir uppsagnirnar hjá Airport Associates í dag vegna áhrifa af völdum kórónuveirunnar eru 53 starfsmenn eftir hjá fyrirtækinu.
„Þetta eru mjög sársaukafullar aðgerðir því þetta er allt fólk sem er komið með mikla reynslu og þekkingu. En að sjálfsögðu vonumst við til að fá þetta fólk aftur til starfa þegar ástandið lagast og ég vona að það vari sem styst,“ segir Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates, í samtali við mbl.is.
Hann segir að fyrirtækið sé eitt þeirra sem séu nánast alveg stopp vegna ástandsins sem er uppi, enda er nánast engin farþegaumferð um Keflavíkurflugvöll.
Airport Associates sagði upp yfir 300 manns fyrir rúmu ári síðan eftir fall WOW air og bætast þessar uppsagnir því ofan á þær. „Þessi tvö ár eru búin að vera frekar döpur,“ svarar Sigþór.
Aðspurður segir hann að efnahagsaðgerðir stjórnvalda komi sér vel fyrir fyrirtækið en gefið hefur verið út að uppsagnir verði að stærstum hluta niðurgreiddar. „Það munar verulega um að stjórnvöld taki á sig 85% af þeim kostnaði. Við erum þakklátir fyrir þessar aðgerðir.“
Þrátt fyrir uppsagnirnar núna og stöðuna sem er uppi í ferðamannaiðnaðinum kveðst Sigþór líta framtíðina björtum augum og segir að fyrirtækið byggi á sterkum stoðum enda verið í rekstri frá árinu 1997. „Við erum eitt af þessum fyrirtækjum sem koma til með að lifa þetta af. Í mínum huga er enginn efi um að við komumst í gegnum þennan skafl.“
Hann bætir við að hann sé bjartsýnn á framtíð Íslands og sér fram á mikil tækifæri þegar faraldrinum lýkur. „Aðlögunarhæfni Íslands er mikil og við höfum sýnt það í gegnum árin að við erum fljót að rétta úr kútnum aftur,“ segir hann.