„Ríkið er til viðræðna um möguleika á lánalínu eða ábyrgð á lánum til félagsins [Icelandair]. Sú aðkoma stjórnvalda hangir á því að áform félagsins og söfnun nýs hlutafjár gangi eftir og lánveitendur taki með fullnægjandi hætti þátt í þessu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum fundi ríkisstjórnarinnar um stöðu Icelandair.
Katrín ítrekar að frekari ákvarðanir verða teknar þegar hlutafjárútboði Icelandair lýkur í lok næsta mánaðar. Boltinn sé því hjá félaginu. Þegar því er lokið er hægt að ræða frekar um skilmála og skilyrði fyrir mögulegum lánum.
Spurð hvort til greina komi að kaupa hlut í félaginu segir Katrín að engir möguleikar séu útilokaðir eins og staðan sé núna. „Núna er vinna framundan við að greina bestu leiðirnar,“ segir hún.