„Fyrstu aðgerðir eru að fara í gang um þessar mundir,“ segir Pétur Ingi Haraldsson, framkvæmdastjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar, en nú liggur fyrir til hvaða aðgerða verður gripið til að bæta öryggi óvarinna vegfarenda við Hörgárbraut á svæði frá Glerá og að hringtorgi við Undirhlíð.
Starfsmenn Vegagerðar, umhverfis- og mannvirkjasviðs og skipulagssviðs Akureyrarbæjar unnu tillögurnar. Hafist verður handa við sumar aðgerðir strax á næstu mánuðum en lengri undirbúning þarf til að hrinda öðrum í framkvæmd, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Pétur segir að þær tillögur sem fyrirhugað er að ráðast í nú í ár snúist um að bæta við skiltum, m.a. um hámarkshraða og umferð barna, setja upp skilti sem sýni raunhraða ökutækja og þá hafi Vegagerðin fengið fjármagn til að setja upp hraða- og rauðljósamyndavél við gangbrautina á Hörgárbraut við Stórholt. Hún verður sett upp í samráði við lögreglu. Kostnaður við uppsetningu vélarinnar nemur um 15 milljónum króna en samstarfssamningur verður gerður um rekstur hennar milli Akureyrarbæjar, Vegagerðar og lögreglu.