Nýtt nám í rekstrarfræði

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík.

Háskólinn í Reykjavík mun bjóða upp á nýjar námsbrautir og fleiri tækifæri fyrir umsækjendur í iðn- og tæknifræðideild í haust. Meðal annars hefst kennsla í rekstrarfræði sem er hagnýtt rekstrar- og viðskiptanám sem er sérstaklega sniðið að einstaklingum á vinnumarkaði. Einnig hefst kennsla á nýrri braut sem ber heitið upplýsingatækni í mannvirkjagerð, auk þess sem þau sem lokið hafa námi í iðnfræði eiga nú möguleika á að fá hluta námsins metinn í nám í tæknifræði við deildina. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Hera Grímsdóttir.
Hera Grímsdóttir. Af vef HR.

„Nýja námið í rekstrarfræði miðar að því að auka færni þeirra sem vilja koma að rekstri og stjórnun, þeirra sem eru í fyrirtækjarekstri eða hyggjast fara út í rekstur. Diplómanám í rekstrarfræði er stutt og hagnýtt rekstrar- og viðskiptanám, sérstaklega sniðið að einstaklingum á vinnumarkaði. Námið er byggt á gömlum grunni rekstrariðnfræði, sem var aðeins fyrir iðnfræðinga, en hefur nú verið opnað fyrir fleirum en aðeins þeim sem eru með diplómagráðu í iðnfræði," segir Hera Grímsdóttir , forseti iðn- og tæknifræðideildar HR, í fréttatilkynningu..

Að sögn Heru hljóta nemendur í diplómanáminu almenna þekkingu og skilning á undirstöðuatriðum í fjármálum fyrirtækja, hagfræði, fjármálastjórn, rekstrargreiningu, nýsköpun og stofnun fyrirtækja og mannauðsstjórnun. Lögð er megináhersla á að nemendur vinni hagnýt, raunhæf verkefni sem byggja á þekkingu kennara úr atvinnulífinu og auka hæfni nemenda á þessum sviðum. Námið í rekstrarfræði er þrjár annir, og kennt er í fjarnámi með staðarlotum sem gerir nemendum kleift að stunda námið samhliða vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka