Vinnuhópar innan stjórnkerfisins vinna nú tillögur að því hvernig hægt er að opna Ísland aftur fyrir ferðamönnum. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi almannavarna í dag. Hann sagði ýmsar útfærslur vera til skoðunar, en að ekkert lægi fyrir í þeim efnum enn sem komið er.
Sóttvarnalæknir mun vinna minnisblað til heilbrigðisráðherra upp úr tillögum vinnuhópsins. Þórólfur telur ótímabært að ræða innihald þess frekar að svo stöddu en því verður skilað fyrir 15. maí, er núgildandi reglur um ferðatakmarkanir falla úr gildi.
Í viðtali við Ríkisútvarpið í gær viðraði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra möguleikann á því að opna fyrir ferðir innan Norðurlanda. Óformlegar viðræður hafa að sögn farið fram milli ráðherra, en Guðlaugur segir ekkert formlegt ferli hafið.
Þórólfur benti á að erfitt væri að reiða sig á tölur frá einstaka löndum um útbreiðslu faraldursins sem skýrist af því að lönd eru misöflug í skimun. Nefndi Þórólfur Svía sem dæmi, en á Íslandi hafa um tuttugu sinnum fleiri verið skimaðir miðað við höfðatölu en í Svíþjóð. Aðspurður segir Þórólfur að gengið sé út frá því að ferðamenn, sem hafa sýkst af veirunni, geti ekki fengið hana aftur og þurfi því ekki að fara í sóttkví við komuna til landsins. „En vandinn er oft að fá staðfestingu á því að þeir hafi fengið veiruna,“ segir hann.
Landamærum Íslands hefur frá því í mars verið lokað fyrir ferðir utan Evrópusambandsins, Schengen-svæðisins og Bretlands, en frá 24. apríl hafa þeir örfáu ferðamenn sem koma hingað frá fyrrnefndum ríkjum þurft að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins.
Þórólfur hefur áður sagt að ferðamennska á Íslandi standi ekki eða falli með því hvort landamærin verða opnuð enda nánast engin ferðamennska í heiminum um þessar mundir.