Um 500 starfsmenn Icelandair og dótturfélaga þess koma að því stóra verkefni sem félagið hefur nú með höndum – flutningi á hjálpargögnum og heilbrigðisvörum frá Kína til Evrópu.
Í aprílmánuði var í þrígang farið á vélum félagsins frá Íslandi til Sjanghæ og þar sóttar vörur, meðal annars fyrir Landspítalann, sem þurfti vegna aðhlynningar sjúklinga með COVID-19. Þetta spurðist út og vatt upp á sig.
„Þetta er mjög þýðingarmikið verkefni fyrir okkur, nú þegar farþegaflug liggur alveg niðri. Með þessu móti skapast mikilvægar tekjur út á nokkrar flugvélar sem annars færu hvergi,“ segir Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, í samtali við Morgunblaðið.
Vélar á vegum Icelandair Cargo eru nú í reglulegum ferðum fyrir alþjóðlegu flutningsmiðlunina DB Schenker milli Keflavíkur, Sjanghæ og München, með hjálpargögn frá Kína til Þýskalands og eftir atvikum áfram til Íslands. Til þessa notar félagið þrjár Boeing 767-breiðþotur sem hafa verið sérstaklega útbúnar til fraktflugs. Samið hefur verið um að farnar verði minnst 45 ferðir og má búast við að verkefnið standi eitthvað fram á sumarið.
Þessu fylgir að farnar verða nokkrar ferðir fyrir sama aðila með lækningavörur frá Kína áfram til Íslands og þaðan áfram til Bandaríkjanna, þar sem áfangastaðurinn er Chicago, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.