„Ég vildi gjarnan komast í sund á eftir“

Víðir Reynisson er orðinn óþreyjufullur og vill fara að komast …
Víðir Reynisson er orðinn óþreyjufullur og vill fara að komast í sund. Ljósmynd/Lögreglan

Almannavarnir eru að skoða það hvort hægt verði að opna sundlaugar aftur í lok maí eða byrjun júní, sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi almannavarna í dag. Farið verður betur yfir það á fundi með sóttvarnalækni og öðrum sérfræðingum á mánudaginn.

Víðir andvarpaði gríðarlega þegar hann var spurður að því hvenær hann sæi fyrir sér að sundlaugarnar opni á nýjan leik og sagði svo: „Ég veit það ekki. Ég vildi gjarnan komast í sund á eftir, ég verð að segja það.“

„Sundlaugarnar eru í næsta pakka, ég get sagt það að við erum að skoða útfærslur á opnun sundlauga eins fljótt og hægt er og þær eru í pakkanum sem verður í næstu afléttingu,“ bætti hann við.

Þá tók hann fram að sundlaugar væru mikilvægar fyrir endurhæfingu og aðgangur að þeim væri í raun mikið lýðheilsumál. Hann vonast til þess að geta svarað því betur í næstu viku hvernig staðið verður að opnun þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert