Hafa áhyggjur af verkfallsaðgerðum Eflingar

Viðar Þorsteinsson og Sólveig Anna Jónsdóttir hjá Eflingu.
Viðar Þorsteinsson og Sólveig Anna Jónsdóttir hjá Eflingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samtök foreldrafélaga í Kópavogi lýsa yfir áhyggjum af yfirvofandi verkfallsaðgerðum Eflingar, sem boðaðar hafa verið 5. maí. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem þau hafa sent frá sér.

„Fyrir liggur að skólastarf leik- og grunnskólum hefur raskast verulega á síðustu mánuðum á grundvelli sóttvarnarlaga og verkfalla.
Yfirvöld hafa lagt áherslu á að skólaganga barna hefjist óskert 4. maí í ljósi þess hve mikilvægir hagsmunir liggja að baki: Menntun, þroski og öryggi barna.
SAMKÓP og SAMLEIK skora á samningsaðila að ganga hratt til samninga og höggva ekki þar sem síst skyldi.“

Sjá nánar hér

Verkfall félagsmanna Eflingar hjá Kópavogi, Seltjarnarnesbæ og fleiri sveitarfélögum tekur gildi á hádegi þriðjudaginn 5. maí, sama dag og rýmkað samkomubann sem takmarkað hefur skólastarf tekur gildi. Verkfallið tekur til fólks sem sér um ræstingar í 4 af 21 leikskóla og 4 af 9 grunnskólum í Kópavogi. Munu skólarnir þurfa að loka fljótlega eftir að eðlilegt skólastarf hefst á ný eftir miklar raskanir vegna samkomubanns.

Verkfallið er boðað hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi en hjá sumum bæjarfélögunum eru engir eða sárafáir félagsmenn Eflingar. Efling fór í verkfall hjá þessum sveitarfélögum í síðasta mánuði en frestaði því eftir rúmlega tvær vikur, vegna kórónuveirufaraldursins.

Að þessu sinni samþykktu 89% félagsmanna í grunnskólum sveitarfélaganna verkfallsboðun og 88% starfsmanna á öðrum vinnustöðum.

Efling krefst þess að fá sams konar samning og félagið gerði við Reykjavíkurborg, fyrir sömu störf. Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga býður sama samning og samið hefur verið um við öll önnur bæjarstarfsmannafélög landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert