Naloxon er lyf sem getur bjargað mannslífum þegar fólk hefur ofskammtað af ópíóíðalyfjum. Lyfið er til í tvenns konar lyfjaformi, sem stungulyf og nefúðalyf. Stungulyfið hefur verið lengi á markaði á Íslandi en nefúðinn varð fyrst aðgengilegur hér fyrir tveimur mánuðum.
Stungulyfið, eða sambærileg lyf undir öðru heiti, hefur verið á markaði á Íslandi frá því á níunda áratugnum. Naloxon-stungulyfið er lyfseðilsskylt og fyrst og fremst notað á heilbrigðisstofnunum en einnig af bráðaliðum í sjúkrabílum. Nauðsynlegt er að þeir sem gefa lyfið á þessu formi hafi þekkingu og þjálfun við notkun þess, samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun.
Naloxon sem nefúði er tiltölulega nýlegt form lyfsins, kom fyrst á markað í Bandaríkjunum og Kanada árið 2015. Lyfið, sem heitir Nyxoid, var markaðssett hér á landi 1. mars en það er ætlað til tafarlausrar notkunar sem neyðarmeðferð við þekktri eða ætlaðri ofskömmtun ópíóíða sem kemur fram sem öndunarbæling og/eða bæling á miðtaugakerfinu, bæði innan heilbrigðisstofnanna og utan þeirra.
Mbl.is hefur áður fjallað um mikilvægi lyfsins en meðal þeirra sem hafa barist fyrir því að það yrði aðgengilegt á Íslandi er Rauði krossinn.
Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar, segir að markaðsleyfið hafi breytt litlu því lyfið er lyfseðilsskylt, kostnaðarsamt og hár þröskuldur fyrir eintaklinga í áhættuhópi að verða sér úti um það. Hún segist hafa vonast til þess að nefúðinn yrði lausasölulyf og færi undir sömu reglugerð og neyðargetnaðarvarnarpillan.
„Þannig gætu allir sem þyrftu á lyfinu að halda, einstaklingar með vímuefnavanda, aðstandendur þeirra og vinir og stjórnendur úrræða sem þjónusta markhópinn, farið í apótek og keypt Naloxon-nefúða. Ákveðnar reglur myndu svo gilda um hvernig það væri afgreitt, að viðkomandi þyrfti að setjast niður með lyfjafræðingi og farið væri yfir leiðbeiningar á notkun lyfsins, áhættuþætti, ofskömmtunareinkenni og fleira.
Þannig vildum við í Frú Ragnheiði og jafnframt okkar samstarfsaðilar hafa aðgengið og teljum að það hefði verið skilvirkasti kosturinn fyrir alla. En því miður ákvað Lyfjastofnun að hafa Naloxon-nefúðann lyfseðilskyldann og þar með var settur frekar hár þröskuldur að lyfinu hér á landi. Enginn skjólstæðingur Frú Ragnheiðar hefur til dæmis fengið lyfið í hendurnar og það eru einstaklingarnir sem eru í hvað mestri áhættu á að ofskammta af morfínskyldum lyfjum“ segir Svala.
Svala segir að Naloxon-lyfið sé aðgengilegt án lyfseðils í nokkrum löndum, þar á meðal á Ítalíu, í Kanada, Ástralíu og Frakklandi og að mörg lönd séu að dreifa Naloxon til einstaklinga í áhættuhópi í gegnum skaðaminnkandi úrræði og bráðamóttökur eins og Noregur.
„Samkvæmt WHO er dreifing á Naloxon með endurlífgunarþjálfun í gegnum lágþröskuldaþjónustur ein af hagkvæmustu leiðunum til að koma í veg fyrir dauðsföll af völdum morfínskyldra lyfja og því skiptir máli að hugað verði að því að draga úr öllum þröskuldum að lyfinu,“ segir Svala.
Til þess að einstaklingur geti fengið Naloxon-nefúða hér á landi þarf læknir að skrifa upp á lyfið og skrá það í sjúkraskrá viðkomandi.
„Með skráningu í sjúkraskrá er búið að stimpla einstaklinginn, að hann eigi við alvarlegan vímuefnavanda að stríða, bara það er ákveðinn þröskuldur fyrir fólk. Síðan þarf einstaklingurinn að fara í apótek og leysa lyfið út og tveir skammtar af Naloxon-nefúða kosta 5-6 þúsund krónur,“ segir Svala.
Læknir getur sótt um undanþágu fyrir sjúkling á greiðslu á Naloxon. „Beiðni um slíka niðurgreiðslu tekur nokkra virka daga sem er enn einn þröskuldurinn að lyfinu,“ segir Svala.
„Naloxon-nefúðinn fékk markaðsleyfi hér á landi en það var ekki hugsað út í hvernig best væri að koma lyfinu til þeirra sem þurfa hvað mest á því að halda, ferlið frá lyfinu til markhópsins var ekki greint. Jafnframt var ekki óskað eftir ráðgjöf frá fagfólki sem starfar í miklu návígi við markhópinn og heldur ekki rætt við einstaklinga með virkan vímuefnavanda um hvernig væri skilvirkast að gera þetta.
Naloxon er ekki ávanabindandi og er heldur ekki hættulegt lyf en það veldur miklum fráhvörfum sem notendur vímuefna vilja forðast, lyfið er þess vegna eingöngu notað þegar ekkert annað er í stöðunni, í bráðatilfellum þegar um öndunar- eða hjartastopp er að ræða. Það vill enginn fá Naloxon í sig,“ sagði Svala í samtali við mbl.is fyrir tveimur árum.
Við erum því miður á nákvæmlega sama stað og fyrir markaðsleyfið. Ekkert úrræði sem þjónustar einstaklinga með virkan vímuefnavanda, að mér vitandi, eins og neyðargistiskýlin, búsetuúrræðin eða vettvangsteymin eru með Naloxon. Heldur ekki fangelsin, lögreglan, né eintaklingar í áhættu eða aðstandendur eru komnir með lyfið í hendurnar,“ segir Svala.
Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis, segir að Naloxon bjargi mannslífum og það mætti dreifa lyfinu víðar eins og hjá lögreglumönnum, neytendum sjálfum sem og neyðarskýlum.
„Við ofskömmtun á ópíöt-skyldum lyfjum bælist meðvitund og öndun sem að getur valdið dauðsfalli. Með Nyoxid-nefúða er hægt að snúa við meðvitundarskerðingu og öndunarbælingu þannig að einstaklingur byrjar að anda. Þannig að lyfið er lífsbjargandi. Helmingunartími lyfsins er þó styttri en ópíata þannig að mikilvægt er að einstaklingi sé komið sem fyrst undir hendur heilbrigðisstarfsfólks,“ segir Hrönn.
Aðspurð um viðhaldsmeðferð segir Hrönn það mikilvægt að gefa einstaklingum kost á slíkri meðferð og að það sé aukið aðgengi efna í þeim tilgangi án innlagnar eða afeitrunar.
„Það gefur einstaklingum í virkri vímuefnaneyslu kost á því að fá læknisfræðilega lyfjameðferð með eftirliti lækna á öruggan hátt. Þá eru einstaklingar ekki að fara í ótryggar aðstæður til að nálgast vímuefni þar sem að hætta er til dæmis á ofbeldi. Mikilvægt er að horfa til hugmyndafræði skaðaminnkandi nálgunar sem er skref í átt að bættum lífsgæðum. Margir sem að vinna í þessum málaflokki vita að einstaklingar í virkri vímuefnaneyslu treysta sér ekki að fara alveg af vímuefnum og oft eru áföll undanfari vímuefnaneyslu. Það þarf því sérhæfða áfallamiðaða nálgun í samskiptum við þessa einstaklinga og þá sér í lagi í vímuefnameðferð,“ segir Hrönn Stefánsdóttir.
SÁÁ hefur veitt sjúklingum sem sprauta þeim vímuefnum sem kölluð eru ópíóðar (morfín og morfínskyld lyf og vímuefni) í æð viðhaldsmeðferð með lyfjum frá árinu 1999. Meðferðin er í flestum tilfellum veitt með lyfinu buprenorphine (suboxone) sem gefið er í tungurótartöflum en einstaka sinnum er lyfið methadon notað. Viðhaldsmeðferð ásamt félagslegri og geðrænni endurhæfingu hefur gjörbreytt meðferð og batahorfum þessara sjúklinga segir á vef SÁÁ.