„Ofboðslega erfiður tími fyrir marga“

AFP

Aukin harka og ofbeldi er í fíkniefnaheiminum og er það talið tengjast skorti á ákveðnum tegundum að sögn þeirra sem þekkja til. Meira er um frelsissviptingar, alvarlegt kynferðisofbeldi og annars konar ofbeldi. Aðgerðir á vegum Reykjavíkurborgar hafa skilað góðum árangri og enginn hefur sýkst af kórónuveirunni í neyðarskýlum.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri talaði um þessa auknu hörku og ofbeldi á blaðamannafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna kórónuveirunnar nýverið og sagði að líklega sé hægt að tengja aukningu í ofbeldisbrotum, vopnuðum ránum og fleiru við kórónuveiruna. 

Að sögn Sigríðar er innheimtan orðin harkalegri í fíkniefnaheiminum, mögulega vegna þess að það er erfiðara að fjármagna neysluna núna. 

Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá neyðarmóttöku kynferðisbrota á Landspítalanum.
Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá neyðarmóttöku kynferðisbrota á Landspítalanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar, tekur undir með Sigríði og það sama gera þær Hrönn Stef­áns­dótt­ir, verk­efna­stjóri neyðar­mót­töku Land­spít­al­ans fyr­ir þolend­ur kyn­ferðisof­beld­is og Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri hjá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. 

19 þolendur leitað á neyðarmóttökuna 

Hrönn segir að þau tilfelli sem að hafa komið á neyðarmóttökuna hafi verið í minna mæli tengd skemmtanalífinu frá því kórónufaraldurinn braust út. „Með samkomubanninu getur fólk ekki farið út að skemmta sér og erum við ekki að sjá eins mikið af tilfellum tengt skemmtanalífinu miðað við síðustu ár en alls hafa 19 þolendur leitað á neyðarmóttökuna í mars- og aprílmánuði,“ segir Hrönn.

Þó nokkur tilfelli þolenda kynferðisofbeldis sem eru í virkri vímuefnaneyslu hafa leitað á neyðarmóttökuna síðustu vikur.  Bæði eru þetta konur í ofbeldissamböndum og einnig konur sem verða fyrir ofbeldi þegar þær eru í ótryggum aðstæðum eins og við að verða sér úti um vímuefni.

AFP

„Síðustu þrjár vikur hafa margir þolendur kynferðisofbeldis, sem til okkar hafa leitað, verið í virkri vímuefnaneyslu. Það virðist vera mikil harka núna meðal fólks sem er í neyslu og erfitt hjá mörgum. Erfiðara er að verða sér úti um efni. Við eigum eflaust eftir að sjá afleiðingar ofbeldis og langvarandi vanlíðunar í kjölfar þessa faraldurs. Þótt ekki sé búið að taka saman tölur um komur á bráðamóttökunni þá er það tilfinning mín og annarra sem að hér vinna að við séum að sjá núna fleiri einstaklinga með sjálfsvígshugsanir og andlega vanlíðan. Við sjáum að þetta er ofboðslega erfiður tími fyrir marga,“ segir Hrönn.

Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar.
Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar. mbl.is/Valgarður Gíslason

Svala segir að þau hjá Frú Ragnheiði heyri það hjá sínum skjólstæðingum að það sé skortur á ákveðnum lyfseðilsskyldum lyfjum á ólöglega vímuefnamarkaðinum. Eins er minna um kókaín, það sé til en gæðin á efninu eru orðin mun lélegri en áður en verðið það sama.

Mjög erfitt sé að fá verkjalyfið OxyContin og þeir sem ná að verða sér úti um það þurfa að greiða mikið fyrir það, um 60% hærra verð en vanalega. Hópurinn sem er háður morfínskyldum lyfjum er því meira að nota Contalgin og Fentanyl-plástur.

Svala segir að þegar skortur myndast á ólöglega vímuefnamarkaðinum, þá er alltaf ákveðin hætta á að skaðlegri og hættulegri vímuefni og íblöndunar efni komi inn á markaðinn. Við í Frú Ragnheiði reynum að fylgjast vel með stöðunni á ólöglega markaðinum og erum í nánu samstarfi við okkar skjólstæðinga varðandi það, einnig til að veita upplýsingagjöf til að stuðla að öryggi og lágmarka ofskömmtunarhættu.

AFP

„Fólk fjármagnar vímuefnavandann sinn á margs konar hátt og oft er það gert á erfiðan og skaðlegan hátt bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og allt samfélagið. Við sjáum að það er meiri harka og ofbeldi að eiga sér stað í dag en fyrir kórónuveiruna og tengist það beint skorti og verðlagi á ólöglega vímuefnamarkaðinum. Skjólstæðingar okkar eru meira að verða fyrir frelsissviptingum, alvarlegu kynferðisofbeldi og annars konar ofbeldi og það ýtir undir þung geðeinkenni eins og sjálfsvígshugsanir, áfallstreitueinkenni og geðrofseinkenni. Á sama tíma eru færri innlagnarpláss í vímuefnameðferðir og erfitt fyrir fólk að komast í innlögn á geðdeild LSH,“ segir Svala. 

„Við sjáum það í fréttum að lögreglan talar um alvarlegri afbrot og fleiri vopnuð rán en á sama tíma í fyrra. Eins alvarlegri ofbeldisbrot en áður. Þeir lögfræðingar sem við erum í samstarfi við, sem eru lögfræðingar okkar skjólstæðinga, hafa einnig áhyggjur af þessari þróun og taka eftir meiri hörku og ofbeldi.“

AFP

Náð að þétta samstarfið

Svala bendir á að mótvægið við þessari alvarlegu stöðu sé að samstarf innan málaflokksins, þeirra sem þjónusta fólks sem glímir við vímuefnavanda og heimilisleysi hafi aukist mikið, Svala nefnir þar neyðarmóttökuna, SÁÁ, Rótina og úrræðin hjá Reykjavíkurborg eins og neyðarskýlin og VoR-teymið (vettvangs- og ráðgjafateymi sem aðstoðar heimilislausa einstaklinga). „Það er algjörlega frábært hvað við höfum náð að þétta samstarfið með því að markmiði að þjónusta okkar skjólstæðinga betur og setja fókusinn á skaðaminnkun,“ segir Svala.

„Á sama tíma eru stjórnvöld ekki endilega tilbúin til að leggja aukna áherslu á skaðaminnkandi aðgerðir eins og í formi viðhalds- og skaðaminnkandi meðferða og breytingar á fíkniefnalöggjöfinni. Við verðum sem samfélag að koma á móts við þann hóp sem getur ekki og treystir sér ekki til að hætta notkun vímuefna og fólk hefur góða og gilda ástæðu til þess. Við verðum að koma ró og jafnvægi á líf þessara einstaklinga með skaðaminnkandi lyfja- og viðhaldsmeðferðum með viðeigandi stuðningi.

Ef boðið væri upp á fjölbreyttari viðhaldsmeðferðir myndum við draga úr margþættum skaða og kostnaði í samfélaginu,“ segir Svala og bætir við að þetta sé ekki stór hópur sem um ræðir en þessi hópur eigi rétt á góðri og gagnreyndri heilbrigðisþjónustu. 

Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri hjá þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar …
Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri hjá þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grófasta ofbeldið er sýnilegra

Hrafnhildur Ólöf segir að þau sem starfi með heimilislausum í Reykjavík hafi fundið fyrir því að það er meira ofbeldi í gangi og um leið er grófasta ofbeldið sýnilegra. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar fór í margvíslegar aðgerðir til að bæta hag heimilislausra á tímum kórónuveirunnar, meðal annars með fjölgun rýma og aukinni þjónustu. Það hefur skilað góðum árangri og hefur ekkert smit komið upp hjá þessum hópi.

Við fjölguðum plássum fyrir konur og höfum tvöfaldað gistirými fyrir heimilislausar konur. Við vissum af þörfinni og að þeir sem sinna nærþjónustu, svo sem vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar (VoR) og Frú Ragnheiður, höfðu áhyggjur. Við erum með sólarhringsþjónustu í Konukoti en það mun breytast í næstu viku þar sem nýtingin undanfarna daga gefur ekki tilefni til þess að hafa áfram opið um miðjan daginn, segir Hrafnhildur en teymið hefur farið eftir alþjóðlegum leiðbeiningum samtaka sem eru undir hatti Evrópusambandsins. Þar kemur fram hvernig ætti að bregðast við vegna COVID-19 og hvað bæri að varast.

Konukot er rekið í samstarfi við Rauða krossinn.
Konukot er rekið í samstarfi við Rauða krossinn. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Meðal annars að bjóða upp á sólarhringsopnun og flokka hverjir eru í áhættuhópi og hverjir ekki. Við leggjum áherslu á að þeir sem eru í áhættuhópi fái meira rými og meiri vernd. Við erum svo heppin að hafa verið nýbúin að ráða annan hjúkrunarfræðing í VoR-teymið þannig að hægt var að keyra strax í upphafi á vettvangshjúkrun og hjúkrun í neyðarskýlum,“ segir Hrafnhildur.

Að hennar sögn fengu þau tímabundið pólskan hjúkrunarfræðing til liðs við sig í gegnum bakvarðasveitina en velferðarsvið hefur lagt aukna áherslu á fræðslu fyrir fólk sem er af erlendu bergi brotið en skjólstæðingar VoR og neyðarskýla koma meðal annars frá Póllandi og Litháen.

„Við höfum því getað verið með leiðbeiningar á ýmsum tungumálum og eins fræðslu þannig að fólk skilji út á hvað þetta gengur,“ segir Hrafnhildur.

Hún segir allt starfsfólk mjög meðvitað um að gæta fyllsta hreinlætis og meira hafi verið keypt af hreinlætisvörum fyrir skjólstæðinga og eins aukið við þrif.

Gistiskýlið við Lindargötu.
Gistiskýlið við Lindargötu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkrir skjólstæðingar hafa fengið að dvelja í Sóttvarnahúsinu á Rauðarárstíg á meðan þeir hafa beðið eftir niðurstöðu úr sýnatöku en það hefur enginn sýkst í neyðarskýlunum. Fólk er búið að leggja gríðarlega miklu vinnu til að ná þessum árangri en starfsmennirnir eru skilgreindir sem framlínustarfsmenn og hafa því haft gott aðgengi að læknavaktinni og göngudeild sóttvarna. Eins neyðarhóps velferðarsviðs sem var skipaður um vettvangsstarf og neyðarstjórn velferðarsviðs. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og gerir það að verkum að fólk upplifir sig öruggt,“ segir Hrafnhildur en meðal þess sem velferðarsviðið hefur gert er að bjóða starfsfólki í VoR-teyminu og neyðarskýlunum upp á handleiðslu sem skiptir miklu máli og hjálpar að hennar sögn. Hvort sem fólk nýtir það eða ekki þá veitir það starfsmönnum öryggi að vita að þessi leið er í boði.

Fosshótel Lind við Rauðarárstíg hefur verið tekið á leigu af …
Fosshótel Lind við Rauðarárstíg hefur verið tekið á leigu af íslenska ríkinu og þar boðið upp á sóttkví, ef á þarf að halda, fyrir þá sem ekki geta verið í sóttkví annars staðar. Ljósmynd af hótelinu af Booking.com

Í dag rekur velferðarsvið Reykjavíkurborgar fjögur smáhýsi á Grandanum sem eru í eigu Félagsbústaða. VoR teymið bætti við þjónustu við þá sem þar búa og einnig var íbúum tryggð bætt sorphirða. í gistiskýlinu eru núna 7-9 karlar sem eru í áhættuhóp þannig að það eru einn til tveir í herbergi. Í neyðarskýlinu fyrir unga karlmenn hafa verið 15-20 manns. Strax í byrjun apríl tók Reykjavíkurborg húsnæði þar við hliðina á til leigu svo hægt var að fjölga plássum og taka á móti þessum hóp án þess að draga úr sóttvörnum og stuðla áfram að nálægðartakmörkun sé virt. 

Hrafnhildur segir stemminguna í neyðarskýlum aðra þar nú en var áður. Allt sé mjög rólegt og oftast friðsamlegt og það hafi gerst um leið og allt áreiti og átroðningur fór um leið og gestir fengu meira persónulegt rými. Ekki er lengur um aldursblöndun að ræða þannig að einungis eru núna langtímaheimilislausir með hjúkrunarþarfir í gistiskýlinu.

Markmið með úthlutun í smáhýsi er að veita öruggt húsnæði …
Markmið með úthlutun í smáhýsi er að veita öruggt húsnæði þeim einstaklingum og pörum sem erfiðlega hefur gengið að útvega búsetuúrræði vegna áfengis- og/eða vímuefnaneyslu, annarra veikinda eða sérþarfa.

„Með fjölgun plássa til viðbótar við Konukot höfum við getað tekið á móti þeim konum sem hafa verið að bætast við hóp þeirra sem þurfa að leita til neyðarskýla á farsóttartímum. Við höldum áfram með viðbótarplássin þrátt fyrir að opnunartíminn fari í fyrra horf. Ef það kemur upp að einhver þarf á sólarhringsþjónustu að halda verður viðkomandi komið fyrir í undanþáguplássi á okkar vegum,“ segir Hrafnhildur.

„Við erum að bjóða upp á aukarými fyrir konur sem eru að koma úr mjög erfiðum aðstæðum. Bara það að þær fái sér herbergi og sér baðherbergisaðstöðu breytir öllu. Finnum varla fyrir þeim nema þá neyðina sem þær eru í. Með því að setja niður nýju smáhúsin og fólk fær sitt heimili og er nálægt þjónustu breytir öllu,“ segir hún og bendir á að þetta sé allt annað en var þegar gámahýsunum var komið fyrir á Grandanum. Bæði sé önnur hugmyndafræði í gangi, búið að fjölga starfsfólki og auk þess sé það þannig að ef fólki er sýnd virðing og boðið upp á snyrtilegt og gott húsnæði þá gengur fólk betur um.

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að um er að ræða sjálfstæða búsetu heimilislausra sem byggir á HF hugmyndafræðinni (Húsnæði fyrst/Housing First). Húsnæði fyrst snýst um að allt fólk eigi rétt á húsnæði og geti haldið því með einstaklingsbundinni nærþjónustu undir formerkjum skaðaminnkunar. 

Í aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar er áætlað að meta þörf á bráðabirgðahúsnæði (e. transitional housing) sem tekur sérstaklega mið af þörfum heimilislausra kvenna. Það felur m.a. í sér að meta þörf fyrir ný smáhýsi og neyðarskýli.

Hrafnhildur segir mikilvægt að nýju smáhúsin verði samþykkt sem fyrst vegna þess fjölda heimilislausra kvenna sem þurftu að leita til neyðarskýla. Að samþykkt verði að húsin verði sett niður í hverfum borgarinnar nálægt þjónustu. „Nú vitum við að þörfin er til staðar og því gríðarlega mikilvægt að við þurfum ekki að bíða mikið lengur eftir staðsetningum.“

Smáhýsin eru 25 m² að stærð. Markmið með úthlutun í smáhýsi er að veita öruggt húsnæði þeim einstaklingum og pörum sem erfiðlega hefur gengið að útvega búsetuúrræði vegna áfengis- og/eða vímuefnaneyslu, annarra veikinda eða sérþarfa. Íbúar þiggja stuðning í formi innlita og eftirlits sem grundvallast á dvalarsamningi með ákvæði um greiðslur vegna húsnæðisins. Íbúum smáhýsa stendur til boða að gera einstaklingsáætlun um þjónustu VoR-teymis og geta fengið innlit frá teyminu alla virka daga. Þjónusta við íbúa smáhýsanna er sinnt með daglegu innliti af VoR-teymi velferðarsviðs.

Ef húsnæði fyrst leiðin er tekin alla leið með ríkið …
Ef húsnæði fyrst leiðin er tekin alla leið með ríkið í framsætinu mun það draga enn frekar úr innlögnum á sjúkrahús, notkun á neyðarathvörfum, tíðni vímuefnameðferða og tíðni fangelsunar. mbl.is/Golli

„Það er gríðarlega mikil þörf á að ríkið taki virkan þátt í nærheilbrigðisþjónustu og vettvangshjúkrun. Ef það á að ná meiri árangri þarf að keyra á aukinni heilbrigðisþjónustu fyrir hópinn út frá þeirra þörfum. Þá á ég ekki við göngudeildar þjónustu eða tímabókanir á heilsugæslu heldur heilbrigðisþjónustu á vettvangi.

Við höfum til dæmis ekki lækni í VoR-teyminu og það gerir alla vinnu hjúkrunarfræðinganna mjög krefjandi og stundum ógerlega. Við þurfum til dæmis að geta hafið viðhaldsmeðferð án afeitrunarinnlagnar á Vogi eða Landspítala. Einnig er vert að nefna að þar sem naloxon er lyfseðilsskylt getum við ekki keypt birgðir af því fyrir neyðarskýlin eða aðra starfsemi hjá okkur. Eina leiðin virðist vera að fá uppáskrifað á kennitölu einstaklings en það vita allir sem sinna nærþjónustu við þennan hóp að það fyrirkomulag gengur engan veginn upp. Gott aðgengi að nærheilbrigðisþjónustu er eitt af grunnstoðum Húsnæði fyrst aðferðarfræðinnar fyrir heimilislausa með fjölþættan vanda og þá sérstakleg þá með flóknasta vandann sem eru einmitt skjólstæðingar VoR-teymisins. Sums staðar erlendis er naloxoni dreift svipað og smokkum. Fagaðilar innan þessa geira vita að á farstóttartímum er þörfin fyrir þessu aukna aðgengi gríðarlega.

Ef húsnæði fyrst leiðin er tekin alla leið með ríkið í framsætinu þá mun það draga enn frekar úr innlögnum á sjúkrahús, notkun á neyðarathvörfum, tíðni vímuefnameðferða og tíðni fangelsunar. Það mun leiða til meiri lífsgæða þjónustuþega og aðstandenda og síðast en ekki síst mun það draga úr álagi á nærsamfélag, stofnanir ríkis og sveitarfélaga almennt. Stundum hjálpar að tala um peninga til að setja hlutina í samhengi fyrir fólk og því vil ég nefna að heimilislausir einstaklingar með fjölþættan vanda sem fá ekki viðeigandi þjónustu geta kostað heilbrigðiskerfið frá 3 upp í 7,5 milljónir á ári samkvæmt erlendum rannsóknum. Við vitum af einstaklingum sem hafa fengið fleiri tugi reikninga fyrir sjúkrabílaþjónustu. Bara þessari litlu breytu fylgja háar upphæðir,“ segir Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg.

Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert