„Tónlistin heldur mér ungum“

Friðrik Karlsson á góðri stundu í Prag með sambýliskonu sinni, …
Friðrik Karlsson á góðri stundu í Prag með sambýliskonu sinni, Laufeyju Birkisdóttur snyrtifræðingi. Gítarleikarinn stendur nú á sextugu og hefur lifað af tónlist í 45 ár. Hann hefur því eðlilega frá ýmsu að segja og gerði það hispurslaust. Ljósmynd/Aðsend

„Við í Mezzof­orte gerðum plöt­una No Lim­its og feng­um Nig­el Wright til að pródúsera hana, þetta hef­ur verið 1987 og við fór­um til Bret­lands til að gera plöt­una. Svo hafði Wright sam­band og fékk mig til að spila með bandi sem hann var bú­inn að vera að pródúsera fyr­ir, sem hét Shaka­tak, svona ekk­ert ósvipuð tónlist og við vor­um bún­ir að vera að gera. Þeir eiga nokk­ur stór hit, svo sem Down on the Street og Dark is the Nig­ht.“

Svona út­skýr­ir Friðrik Karls­son gít­ar­leik­ari upp­hafið að því sem átti eft­ir að verða 18 ára dvöl hans í Bretlandi, þó með hlé­um til að spila ann­ars staðar í heim­in­um. Friðrik fagnaði sex­tugsaf­mæli sínu í apríl og ræddi líf sitt og fer­il við Morg­un­blaðið við það til­efni. Sagnala­ger­inn var hins veg­ar ekki tæmd­ur og falaðist mbl.is því eft­ir ör­lítið meiru.

Friðrik út­skrifaðist fyrst­ur manna af þá ný­stofnaðri tón­list­ar­braut Fjöl­brauta­skól­ans í Breiðholti árið 1982 en hafði þá þegar haft tekj­ur af tónlist í sjö ár og hef­ur nú í 45 ár. Hann lauk burt­farar­prófi í gít­ar­leik frá Tón­skóla Sig­ur­sveins þar sem hann síðar kenndi svo og stofnaði ásamt Birni Thorodd­sen gít­ar­leik­ara Nýja gít­ar­skól­ann við Rauðagerði auk þess að af­greiða í hljóðfæra­versl­un­inni Rín við Rauðar­ár­stíg þar sem Friðrik á enn sölu­met í gít­ur­um.

Kallaður til Bret­lands akútt

„Svo var ég bara hérna heima og þá hringdi Wright og spurði hvort ég gæti komið til Bret­lands al­veg akútt, bara á morg­un,“ rifjar Friðrik upp. „Þá hafði hann fengið það verk­efni að pródúsera tón­list­ina í kvik­mynd­inni Evita sem Madonna lék í og hann vildi fá mig á gít­ar í það verk­efni. Í sam­bandi við þetta var ég úti í sjö mánuði en kom oft heim um helg­ar og var þá að spila með Stjórn­inni í Þjóðleik­hús­kjall­ar­an­um,“ seg­ir Friðrik og blaðamaður ját­ar reynd­ar að hafa verið viðstadd­ur fleiri en eina og fleiri en tvenna þeirra tón­leika.

Félagarnir í Mezzoforte á æfingu fyrir tónleika í Eldborg með …
Fé­lag­arn­ir í Mezzof­orte á æf­ingu fyr­ir tón­leika í Eld­borg með Gunn­ari Þórðar­syni árið 2016. F.v.: Gunn­laug­ur Briem, Friðrik Karls­son, Eyþór Gunn­ars­son og Jó­hann Ásmunds­son. Ljós­mynd/​Aðsend

Hann seg­ist í kjöl­far þessa sjö mánaða tíma­bils hafa tekið að íhuga að flytja út. „Ég var með fullt af stór­um verk­efn­um og ákvað svo bara að taka skrefið og fara al­veg út. Þarna var ég ný­bú­inn að kynn­ast kon­unni minni þáver­andi, Stein­dóru Gunn­laugs­dótt­ur, og ég spurði hana hvort hún vildi ekki koma með mér til London í sex mánuði og svo endaði það með því að við vor­um úti í 18 ár,“ seg­ir Friðrik og hlær. „Enda sagði hún mér að ég væri bölvaður lyg­ari,“ seg­ir gít­ar­leik­ar­inn og skell­ir upp úr á ný.

Friðrik kom heim árið 2012 en var þó áfram með ann­an fót­inn í Bretlandi auk þess að spila með Mezzof­orte af og til milli þess sem aðrir gít­ar­leik­ar­ar leystu hann af í verk­efn­um sveit­ar­inn­ar sem öðlaðist nán­ast heims­frægð árið 1983 með smell­in­um Garden Party. „Ég spilaði nú reynd­ar ekki mikið með Mezzof­orte þenn­an tíma sem ég bjó í Bretlandi, ég þurfti bara að velja á milli og þetta voru sjö ár sem ég spilaði nán­ast ekk­ert með þeim. Það voru nokkr­ir gít­ar­leik­ar­ar sem leystu mig af, þar á meðal þýski gít­ar­leik­ar­inn Bruno Möller,“ seg­ir Friðrik.

Bret­lands­dvöl­in var hið mesta æv­in­týri er upp var staðið. Friðrik lék með bresku tón­list­ar­kon­unni Kate Bush á 22 tón­leik­um árið 2014 sem voru henn­ar fyrstu síðan 1979 auk þess að koma fram með tón­listar­fólki á borð við Madonnu, José Car­reras og hinn velska Tom Jo­nes. Þá var hann gít­ar­leik­ari bresku út­gáfu sjón­varpsþátt­anna X-Factor svo aðeins sé stiklað á stóru.

Mezzof­orte frestað í Nor­egi

„Dag­inn sem ég kom til Íslands var svo hringt í mig og ég beðinn að fara til Ástr­al­íu að spila í [söng­leikn­um] Jes­us Christ Su­per­st­ar í tvo mánuði,“ seg­ir Friðrik. „Ég var að spila svo mikið í leik­húsi í Bretlandi og mikið viðloðandi þann bransa og þannig kom þetta til.

En hvað er títt af Mezzof­orte í dag, þess­ari forn­frægu sveit sem stofnuð var 1977?

„Við spiluðum mjög mikið á síðasta ári, vor­um með 37 tón­leika á ár­inu, gömlu menn­irn­ir,“ svar­ar Friðrik glett­inn. Blaðamaður minn­ist þess frá bú­setu­ár­um sín­um í Stavan­ger að Mezzof­orte hélt að minnsta kosti tvenna tón­leika í ná­granna­bæn­um Sand­nes á ár­un­um upp úr 2010.

Friðrik ásamt dóttur sinni, Maríu Von Friðriksdóttur, sem kaupir á …
Friðrik ásamt dótt­ur sinni, Maríu Von Friðriks­dótt­ur, sem kaup­ir á hann föt í þeirri von að vin­ir henn­ar haldi ekki að hann sé afi henn­ar. Til­efnið er út­nefn­ing Friðriks sem bæj­arlista­manns Seltjarn­ar­ness í janú­ar 2018. Ljós­mynd/​Aðsend

„Við höf­um verið tölu­vert mikið í Nor­egi, átt­um ein­mitt að hefja tón­leika­ferð þar núna í mars í Stavan­ger en því var auðvitað öllu frestað vegna kór­ónu­veirunn­ar og búið að færa þetta yfir á sept­em­ber, við sjá­um hvort það geng­ur, ég veit nátt­úru­lega ekk­ert um það.

Nor­eg­ur er mjög sterk­ur markaður, við höf­um stund­um spilað þar tíu sinn­um á ári, Nor­eg­ur er sterk­asta Norður­landið hjá okk­ur og svo kem­ur Dan­mörk þar á eft­ir auk þess sem það eru svona þrír, fjór­ir staðir sem við höf­um verið að spila á í Svíþjóð,“ seg­ir Friðrik.

Hvernig taka frænd­ur okk­ar Norðmenn þá Mezzof­orte?

„Þeir eru rosa­lega hrifn­ir af okk­ur og þetta er reynd­ar mjög skemmti­legt. Oft koma ein­hver pör á tón­leik­ana sem voru að kynn­ast þegar við slóg­um í gegn '83 en auk þess koma alltaf marg­ir tón­list­ar­menn að hlusta á okk­ur, hvort sem það er í Dan­mörku, Nor­egi eða Svíþjóð,“ seg­ir Friðrik frá.

Bölvað hark að lifa af tónlist

„Þetta er auðvitað bölvað hark,“ ját­ar hann, innt­ur eft­ir því hvernig gangi að lifa af tónlist nú á dög­um, menn verði í raun að hafa öll spjót úti, marg­ir séu að kenna og hann sjálf­ur gef­ur út hug­leiðslu­tónlist á Spotify und­ir merkj­um Alda Music sem var Sena áður.

Friðrik Karlsson gítarleikari sextugur 24. apríl. Hann kvaddi Bakkus fyrir …
Friðrik Karls­son gít­ar­leik­ari sex­tug­ur 24. apríl. Hann kvaddi Bakkus fyr­ir þrem­ur árum og seg­ir tón­list­ina halda sér ung­um. Ljós­mynd/​Aðsend

„Þetta er nátt­úru­lega gjör­breytt um­hverfi núna, hér áður fyrr kom stór hluti tekn­anna af því að spila á böll­um. Þegar ég var að túra með Stjórn­inni hérna 1993 og '94 voru þetta bara mjög góð laun og maður hafði fín­ar tekj­ur af þessu. Svo er þetta bara al­veg dáið út en það sem hef­ur komið í staðinn eru tón­leik­ar, og ekki síst þess­ir jóla­tón­leik­ar sem voru ekki neitt neitt bara fyr­ir rúm­um ára­tug. All­ir og hund­ur­inn þeirra halda jóla­tón­leika,“ seg­ir Friðrik og hlær dátt.

„Nú er það líka svo að farið er að kenna ryt­míska tónlist í svo mörg­um skól­um, hún er kom­in inn í alla tón­list­ar­skóla, áður fyrr gastu bara lært á pí­anó, selló og fiðlu og eitt­hvað svona, núna get­urðu lært á raf­magns­gít­ar, tromm­u­sett og hljóm­borð og ég veit ekki hvað og þetta er rosa­lega mik­il breyt­ing á ekki svo löng­um tíma. Þannig að núna eru mjög marg­ir tón­list­ar­menn farn­ir að kenna og þetta er svo­lítið öðru­vísi en var auk þess sem út­gáfu­mál eru gjör­breytt, nú sem­urðu lag og set­ur það á Spotify en þú þarft reynd­ar að fá rosa­lega mikla spil­un á Spotify til að hafa ein­hverj­ar tekj­ur af tón­list­inni þinni,“ seg­ir þessi gam­al­reyndi tón­list­armaður sem hef­ur marga fjör­una sopið.

Fór í hrika­leg­ar mút­ur

„Ég vinn mikið til bara heim­an frá mér, er mikið að semja hug­leiðslu­tónlist. Ég bý við sjó­inn og fæ mik­inn inn­blást­ur þaðan og frá sól­ar­lag­inu,“ seg­ir Friðrik sem er bú­sett­ur á Seltjarn­ar­nesi og var reynd­ar út­nefnd­ur bæj­arlistamaður Seltjarn­ar­ness árið 2018. „Nú ger­irðu bara allt sjálf­ur, það er ekk­ert verið að bóka ein­hver stúd­íó og fjölda fólks leng­ur til að taka upp, ég er bara heima með hljóm­borðið og gít­ar­inn, ég get gert allt sjálf­ur,“ seg­ir Friðrik en hik­ar svo. „Ja, nema syngja, ég hef aldrei getað sungið, þá þarf ég að fá ein­hvern fyr­ir mig,“ bæt­ir hann við en breyt­ir svo framb­urði sín­um. „Jú ég gat al­veg sungið þegar ég var barn en svo fór ég í svo hrika­leg­ar mút­ur þegar ég var tólf ára að rödd­in bara bilaði eft­ir það,“ seg­ir hann hlæj­andi og rifjar upp að hon­um hafi verið í lófa lagið að kyrja helstu verk bresku rokk­hljóm­sveit­ar­inn­ar Slade hverr­ar stjarna skein skær­ast á átt­unda ára­tugn­um.

Mezzoforte í Mannheim í Þýskalandi árið 1985. Í miðjunni situr …
Mezzof­orte í Mann­heim í Þýskalandi árið 1985. Í miðjunni sit­ur faðir Friðriks, Karl Friðrik Karls­son efna­verk­fræðing­ur þar í borg, en föðurafi og -amma Friðriks voru Þjóðverj­ar. Ljós­mynd/​Aðsend

Er sú sveit þá einn áhrifa­valda Friðriks í tónlist?

„Það eru svo marg­ir, í upp­hafi voru það kannski Deep Purple og Led Zepp­el­in en ég get líka nefnt hljóm­sveit­ina Ret­urn to For­ever sem spilaði eins kon­ar jazz-rokk, þeir blönduðu rokk­inu inn í jazz­inn með mjög góðri út­komu. Svo hef ég bara farið svo víða og kynnt mér svo marga stíla, til dæm­is vegna stúd­íóvinnu, að það er ekki hlaupið að því að nefna ein­hverja sér­staka áhrifa­valda. Ég hef gert svo ólíka hluti en ég er kannski hálf­gerð alæta á tónlist.“

Friðrik tók þá ákvörðun fyr­ir þrem­ur árum að segja skilið við Bakkus gamla og hætta al­farið að drekka áfengi. Hann stund­ar nú jóga, hug­leiðslu, sjó­sund og lík­ams­rækt. Hvernig kom þetta til?

„Ég var orðinn dá­lítið slæm­ur í bak­inu, ég var með svo vont „post­ure“ á sviðinu, stóð alltaf svo hok­inn með gít­ar­inn og svo var ég bara orðinn of feit­ur. Ég fór að hugsa um hvort maður ætti kannski að breyta um lífs­stíl, grenna sig og setja aðeins meiri kraft í jógað og taka mataræðið í gegn og ég verð að játa að ég sé ekki eft­ir þessu, þetta er bara al­veg frá­bært,“ seg­ir Friðrik og kveður sjó­sund eitt mesta „kick“ sem á fjör­ur hans hafi rekið í líf­inu. „Manni líður al­veg svaka­lega vel eft­ir á.“

Hvað með fíkni­efni á sín­um tíma?

„Ég var aldrei mikið í dópi en prófaði held ég allt sam­an, reykti hass og gras og tók kókaín, reynd­ar þó bara einu sinni. Mér fannst kókaín viðbjóðslegt, langaði ekki að upp­lifa þá reynslu aft­ur en ég reykti hass og gras í svona ár. Gall­inn var að þessi efni fóru svo í minnið, ég man að ég var kallaður upp að töflu í skól­an­um og átti að reikna ein­hver dæmi sem ég vissi að ég kunni al­veg en svo var bara eins og allt blokk­eraðist og þetta kom sér­stak­lega fram þegar ég var und­ir álagi eða ein­hver spenna var eða stress, þá lokaðist bara fyr­ir allt,“ rifjar Friðrik upp.

Var aldrei nein fylli­bytta

Friðrik sneri baki við hug­breyt­andi efn­um en lærði þess í stað inn­hverfa íhug­un. „Maður er auðvitað alltaf að sækj­ast eft­ir breyttu ástandi,“ seg­ir hann og glottið heyr­ist nán­ast gegn­um sím­ann. „Það eru svo marg­ar leiðir til að gera hluti og þess vegna hætti ég líka að drekka,“ seg­ir Friðrik. „Ég var aldrei nein fylli­bytta, á auðvitað marga AA-menn sem vini en ég var aldrei kom­inn á háska­lega braut í drykkj­unni, það var bara eng­in spenna í þessu leng­ur, eins og þegar maður var að byrja að drekka sem ung­ling­ur. Núna finnst mér aðallega bara gott að vera alls­gáður,“ seg­ir Friðrik og bæt­ir því við að hann sé einnig hætt­ur syk­uráti, að hætta að drekka hafi verið ein­fald­asta mál í heimi við hliðina á því að henda sykr­in­um út.

Á afmælistónleikum Mezzoforte í Háskólabíói 2017. Friðrik með uppáhaldshljóðfærið sitt, …
Á af­mælis­tón­leik­um Mezzof­orte í Há­skóla­bíói 2017. Friðrik með upp­á­halds­hljóðfærið sitt, Nylon-gít­ar­inn. Ljós­mynd/​Aðsend

„Það er bara fínt, ég held að þetta sé dá­lítið af­stætt,“ seg­ir nýbakað af­mæl­is­barn, spurt um til­finn­ing­una að vera orðinn sex­tug­ur. „Ald­ur er svo af­stæður, ég á 18 ára dótt­ur sem kaup­ir föt á mig af því að hún vill síður að vin­ir henn­ar haldi að ég sé afi henn­ar,“ ját­ar Friðrik og skelli­hlær. „Svo fer þetta líka eft­ir lífs­stíln­um, ég er í mjög heil­brigðum lífs­stíl í dag og mér líður til dæm­is miklu bet­ur en fyr­ir fimm árum. Tón­list­in held­ur mér ung­um, maður þarf stöðugt að vera að upp­færa sig og tak­ast á við nýja hluti. Þá hjálp­ar það auðvitað líka að vera í góðu sam­bandi,“ seg­ir Friðrik Karls­son gít­ar­leik­ari að lok­um og vís­ar þar til sam­býl­is­konu sinn­ar, Lauf­eyj­ar Birk­is­dótt­ur snyrti­fræðings, auk þess sem Friðrik á eina dótt­ur, Maríu Von Friðriks­dótt­ur, þá sem ein­mitt ann­ast fata­kaup­in.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka