Vinna við tvöföldun Reykjanesbrautar í Hafnarfirði, frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi, hefur gengið vel undanfarna tvo mánuði þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn. Fyrsta malbikun sumarsins hófst 28. apríl.
Tvöföldun Reykjanesbrautar á þessum kafla fer fram í mikilli nálægð við þunga umferð. Íbúðarbyggð er mikil í næsta nágrenni og þar eru einnig skólar og verslanir. Því er lögð mikil áhersla á öll öryggismál. Verið er að tvöfalda 3,2 kílómetra kafla auk þess sem setja á upp tvær nýjar göngubrýr og breikka brúna yfir Strandgötu.
Fram kemur í frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar að verktakinn, Ístak, hafi haldið ótrauður áfram þrátt fyrir veirufaraldurinn, en að jafnaði hafa verið 45 starfsmenn á vinnusvæðinu.
Umferð verður hliðrað á næstunni yfir á hinn nýja hluta Strandgötubrúar svo hægt verði að ljúka við vinnu við undirgöng norðurakreinar. Verklok eru áætluð í nóvember 2020. sisi@mbl.is