Lífið er svo hlykkjótt

„Ég er svo mikil Pollýanna í mér að ég hef …
„Ég er svo mikil Pollýanna í mér að ég hef ekki lagst í reiði. Ég meira að segja neita að hugsa um mig sem veika, heldur segi ég bara eins og er, að ég þoli ekki sumt húsnæði. Þá forðast ég það bara og geri allt sem ég get til að halda mér hraustri,“ segir bráða- og slysalæknirinn Kristín Sigurðardóttir, sem hætta þurfti að vinna á spítalanum vegna rakaskemmda sem ollu veikindum hjá henni. mbl.is/Ásdís

Krist­ín Sig­urðardótt­ir hef­ur lifað spenn­andi og skemmti­legu lífi sem slysa- og bráðalækn­ir en lækn­is­fræðin heillaði hana upp úr skón­um þegar hún fékk að fylgj­ast með stórri aðgerð sum­arið eft­ir mennta­skóla. Á lífs­ins leið hef­ur hún búið og starfað í Bretlandi og á Kana­ríeyj­um og lent þar í ýms­um æv­in­týr­um. Í dag fræðir hún fólk um streitu og seiglu en hana skort­ir sjálfa ekki seigl­una. Krist­ín þurfti að hætta að vinna sem sjúkra­hús­lækn­ir vegna veik­inda af völd­um raka­skemmda en horf­ir björt­um aug­um til framtíðar og er full af nýj­um hug­mynd­um.

Hún hef­ur fetað nýj­ar leiðir í líf­inu og finn­ur sig vel í því að fræða fólk um streitu og seiglu. Hún viður­kenn­ir að líf­ins veg­ur hef­ur ekki alltaf verið beinn og breiður, eða eins og hún seg­ir: „Lífið er svo hlykkj­ótt.“

Sjö ára út­legð

Eft­ir nám og störf í Bretlandi og fimm ár á Íslandi ákvað fjöl­skyld­an að flytja til Kana­ríeyja, en manni Krist­ín­ar, Geir Þrá­ins­syni, hafði verið boðið spenn­andi starf þar ytra.

„Mér fannst svo mik­ill hraði og of­gnótt í þjóðfé­lag­inu þarna í góðær­inu og erfitt að ala dreng­ina upp við þetta gild­is­mat, þannig að ég var mjög til­bú­in að fara út í nýtt æv­in­týri, læra nýtt tungu­mál og gefa strák­un­um tæki­færi á að búa er­lend­is. Upp­haf­lega ætluðum við að vera eitt ár og sjá svo til en árin urðu sjö.“

Fjöl­skyld­an sett­ist að í spænsku borg­inni Las Palmas á Gran Cana­ría-eyju.

„Ég byrjaði á að koma strák­un­um fyr­ir og fara í spænsku­nám,“ seg­ir Krist­ín og nefn­ir að dvöl­in hafi verið mikið æv­in­týri. Dreng­irn­ir þrír fundu sig vel í fót­bolta sem leiddi þau á mót úti um allt; bæði á mörg­um eyj­um Kana­ríeyja og uppi á meg­in­landi Spán­ar, m.a. í La Macia Barcelona-fót­boltaþorp­inu.

Fljót­lega fóru þó verk­efn­in að banka upp á sem hentuðu Krist­ínu vel.

„Þarna voru ís­lensk­ar út­gerðir sem stunduðu veiðar und­an strönd­um Afr­íku og þær fóru að leita til mín, en stund­um urðu slys eða veik­indi um borð í skip­un­um, eða gæta þurfti að þeim sem lögðust inn á spít­ala í Las Palmas. Þannig að ég hellti mér þarna út í sjáv­ar­út­vegs­lækn­is­fræði. Ég tók að mér ýmis verk­efni og átti þá mörg æv­in­týr­in. Ég var send til Má­rit­an­íu til að taka út heil­brigðis­kerfi þar, en at­huga þurfti hversu vel væri hægt að sinna þar veik­um eða slösuðum sjó­mönn­um. Það þurfti að meta hvaða staðir kæmu best til greina til að taka á móti sjúk­ling­um, og meta hvenær þyrfti að kalla út her, sjúkra­flug eða þyrlu,“ seg­ir Krist­ín og nefn­ir að þá hafi komið sér vel sú reynsla sem hún hafði eft­ir að hafa unnið sem þyrlu­lækn­ir á Íslandi, ein fárra kvenna sem því starfi hafa gegnt. Einnig hafði Krist­ín á árum áður kennt í Stýri­manna­skól­an­um og í Slysa­varna­skóla sjó­manna.

Fransk­an bjargaði manns­lífi

Eitt sinn var Krist­ín send til Mar­okkó þar sem hún átti að taka á móti slösuðum sjó­manni og fylgja hon­um í sjúkra­flugi til Las Palmas þar sem lækn­isþjón­ust­an var mun betri en vænta mætti í Mar­okkó. Það átti eft­ir að verða minn­is­stæð ferð.

„Ég var á leiðinni í skól­ann með strák­ana þegar ég fékk sím­tal. Skipið var úti á miðunum með meðvit­und­ar­laus­an sjó­mann sem hafði lent í slysi. Þetta hljómaði mjög illa og jafn­vel það illa að viðkom­andi ætti varla mögu­leika á að lifa. Mér fannst meiri­hátt­ar hvað út­gerðin var til­bú­in til að gera allt til þess að bjarga þess­um manni og þegar svona stóð á var ekk­ert til sparað,“ seg­ir hún.

Kristín vann við afar þröngar og fábrotnar aðstæður þegar hún …
Krist­ín vann við afar þröng­ar og fá­brotn­ar aðstæður þegar hún flutti stór­slaðsaðan sjó­mann í sjúkra­flugi frá Mar­okkó til Las Palmas. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

„Þessi sjó­maður var með mikla höfuð- og and­litsáverka og inn­vort­is meiðsl meðal ann­ars. Mér var sagt að fara af stað með flug­vél sem beið út á velli. Ég gat komið við á lækna­stofu og kippt með ein­hverju smá­veg­is en ann­ars var ég ekki með neitt í hönd­un­um. Síðan átti að redda hjúkr­un­ar­fræðingi og lækna­búnaði, en við flug­um af stað til Mar­okkó og það þurfti að sigla á móti skip­inu, stökkva á milli skipa og ná í mann­inn. Flug­vél­in beið svo til að ferja hann yfir til Las Palmas,“ seg­ir Krist­ín og út­skýr­ir að maður­inn hafi verið sett­ur beint úr bátn­um í sjúkra­bíl sem átti að keyra á flug­völl­inn. En í stað þess að beygja inn á flug­völl­inn beygði bíl­stjór­inn í hina átt­ina, í átt að sjúkra­húsi.

„Ég sagði hon­um að sjúkra­flugið væri klárt, hann ætti að keyra á flug­völl­inn. Hann myndi ekki lifa það af að fara á þenn­an spít­ala; hann þyrfti miklu meiri aðstoð. En þeir þótt­ust ekki skilja mig en eng­inn þarna skildi ensku eða spænsku. Þetta sner­ist hjá þeim um pen­ing­inn; þeir vildu fá sjúk­ling­inn inn á spít­al­ann til að fá pen­ing­inn,“ út­skýr­ir hún.

„Þeir stoppuðu við spít­al­ann og það mætti þarna mann­fjöldi til að reyna að rífa sjúk­ling­inn út úr bíln­um. Ég lagðist á bör­urn­ar. Ég var lík­am­lega að berj­ast gegn þeim og hugsaði ekk­ert út í það að þarna var ég kona í ar­ab­a­ríki,“ seg­ir hún.

„Það komu alltaf fleiri og fleiri og þarna voru mik­il ösk­ur og læti á ar­ab­ísku. Ég neitaði að láta þau fá þenn­an meðvit­und­ar­lausa mann. Að lok­um náðu þeir í lækni sem talaði frönsku. Þá allt í einu braust fram franska, sem ég hafði ekki notað síðan í mennta­skóla,“ seg­ir Krist­ín, sem fékk að lok­um sitt fram.

„Ég hafði tekið frönsku í menn­tó þegar all­ir mín­ir vin­ir tóku þýsku, bara af því ég vildi gera eitt­hvað öðru­vísi en aðrir. Og ég trúi því að þessi eina ákvörðun mín, að haka við frönsku í stað þýsku, hafi orðið til þess að bjarga manns­lífi.“ 

Þótt út­litið hafi verið svart náði maður­inn sér. „Það var al­gjört krafta­verk að hann skyldi lifa af; það var eng­inn sem bjóst við því. En hann náði sér og fór meira að segja aft­ur til starfa síðar. Eina sem breytt­ist var að hann varð græn­met­isæta og varð held­ur létt­ari í skapi. Hann send­ir alltaf jóla­kort og hef­ur gefið okk­ur koní­ak og fleiri fal­leg­ar gjaf­ir frá sínu heimalandi, Úkraínu.“

Að kveðja spít­al­ann

Þegar Krist­ín kom heim réð hún sig í 70% starf á end­ur­hæf­ing­ar­deild Land­spít­al­ans og hugðist taka vakt­ir á slysa­deild á móti. Hún fann sig vel á end­ur­hæf­inga­deild­inni og gat vel hugsað sér að vinna þar áfram. Það varð lítið úr vökt­un­um á slysa­deild því Krist­ín fór að upp­lifa end­ur­tek­in flensu­lík ein­kenni.

„Fyrst var þetta eins og flensa og svo út­halds­leysi, sem ég skildi ekki því ég var ekki byrjuð að taka vakt­ir og aðeins með eitt kall­tæki. Ég hélt kannski að ég væri að fá flensu af því ég væri ný­kom­in frá Spáni. Ég var þurr og rauð í aug­um og þurr í háls­in­um og fór að fá háls­bólg­ur og út­brot og fleiri ein­kenni. Það varð alltaf erfiðara fyr­ir mig að hlaupa eða stunda rækt­ina sem ég skildi ekki því ég var í fanta­formi. En ég mætti alltaf í vinn­una því ég er af þeirri kyn­slóð sem mæt­ir bara í vinn­una sama hvað, sem er auðvitað rangt,“ seg­ir hún.

„Einn dag­inn var okk­ur sagt að tauga­sál­fræðing­arn­ir væru svo veik­ir að við þyrft­um að skipta um her­bergi við þá; það væri svo mik­il mygla,“ seg­ir Krist­ín og seg­ist þá í fyrsta skipti hafa farið að hugsa um hvort veik­indi henn­ar gætu mögu­lega verið tengd þess­um raka­skemmd­um.

„Eft­ir nokkra mánuði var mér ekk­ert að batna en ég var að enn að vinna. Það tek­ur mann lang­an tíma að átta sig á þessu. Ég tók eft­ir því að ég var betri heima um helg­ar en það dró af mér í vinn­unni. Um vorið var ég orðin veru­lega veik, en hélt að þetta myndi lag­ast í sum­ar­frí­inu. En þegar ég kom aft­ur til starfa eft­ir sum­ar­fríið varð ég enn verri, var hrein­lega orðin tal­móð og ég lagðist ein­fald­lega í rúmið með verstu flensu æv­inn­ar. Svo kom í ljós að fleiri voru veik­ir,“ seg­ir Krist­ín og það kom á dag­inn að hús­næði Land­spít­al­ans var víða illa farið af raka­skemmd­um.

„Ég hélt að ég myndi bara lag­ast og hélt að ég yrði bara frá vinnu í eina viku meðan á viðgerðum stæði. Ég gerði mér enga grein fyr­ir þessu. Ég reyndi að fara niður á slysa­deild og fékk strax ein­kenni og ég prófaði fleiri staði en fékk alls staðar ein­kenni. Þetta var hrika­legt ár. Það tók mig heilt ár að átta mig á því að ég gæti ekki farið aft­ur að starfa sem lækn­ir á spít­al­an­um,“ seg­ir hún.

„Það var mik­il sorg að kveðja ástríðuna mína, lækn­is­starfið. Þetta var skell­ur.“

Lán­söm að vera hraust

Síðan eru liðin um fimm ár og Krist­ín hef­ur ekki setið auðum hönd­um, þótt veik­ind­in hafi tekið sinn toll og sett henni skorður. Krist­ín varð að sætta sig við að það væru marg­ir staðir sem hún gæti alls ekki farið né unnið á sök­um raka­skemmda hús­næðis­ins. Eft­ir að hún hætti á spít­al­an­um fór hún í leiðsög­u­nám í end­ur­mennt­un­ar­deild Há­skóla Íslands.

Kristín er afar þakklát að geta stundað útivist og veit …
Krist­ín er afar þakk­lát að geta stundað úti­vist og veit fátt skemmti­legra en að vera úti í nátt­úr­unni. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

„Ég er svo mik­il Pol­lý­anna í mér að ég hef ekki lagst í reiði. Ég meira að segja neita að hugsa um mig sem veika, held­ur segi ég bara eins og er, að ég þoli ekki sumt hús­næði. Þá forðast ég það bara og geri allt sem ég get til að halda mér hraustri. Ég var líka lán­söm að áður en ég veikt­ist var ég rosa­lega hraust og gat hlaupið upp hvaða fjall sem er. Fyrst var ég mjög svekkt og sorg­mædd að hafa misst þessa hreysti mína. En það breytt­ist og seinna varð ég þakk­lát fyr­ir að hafa í raun verið svona hraust áður, því það hef­ur hjálpað mér að þola veik­ind­in bet­ur. Ég horfi á það sem ég hef og er þakk­lát fyr­ir að vera með svona góða fjöl­skyldu og vini, hreyfigetu og að geta stundað úti­vist.“

Seigla og streita

Krist­ín er nú í hluta­starfi við heils­u­rann­sókn hjá þjón­ustumiðstöð rann­sókn­ar­verk­efna (ÞR) fyr­ir Íslenska erfðagrein­ingu en einnig kenn­ir hún lækna­nem­um.

„Fólk kem­ur Í ÞR og er hjá okk­ur hálf­an dag í alls kon­ar heils­u­rann­sókn­um,“ seg­ir hún en auk þess hef­ur Krist­ín síðastliðin ár beint kröft­um sín­um enn meira að heilsu­efl­ingu og for­vörn­um og flutt vin­sæl er­indi um seiglu og streitu.

„Ég hef alltaf verið í fræðslu­hlut­verk­inu og lengi haft áhuga á streitu og fund­ist hún heill­andi. Streit­an hjálp­ar okk­ur að þola áskor­an­ir, breyt­ing­ar og hætt­ur. En hún á ekk­ert að vera alltaf í gangi!“ seg­ir Krist­ín.

Við för­um að slá botn­inn í sam­talið en ekki er úr vegi að spyrja hvað sé á dag­skrá á næst­unni hjá þess­ari orku­miklu konu, sem þó hef­ur þurft að hægja á sér.

„Ég lifi að mestu í nú­inu en mig lang­ar að vera virk og geta tekið þátt. Mig lang­ar að halda áfram að læra og fylgj­ast áfram með fjöl­skyldu og vin­um. Ég lifi einn dag í einu, en mér er samt alltaf að detta eitt­hvað nýtt í hug.“

Ítar­legt viðtal við Krist­ínu er í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert