Kristín Sigurðardóttir hefur lifað spennandi og skemmtilegu lífi sem slysa- og bráðalæknir en læknisfræðin heillaði hana upp úr skónum þegar hún fékk að fylgjast með stórri aðgerð sumarið eftir menntaskóla. Á lífsins leið hefur hún búið og starfað í Bretlandi og á Kanaríeyjum og lent þar í ýmsum ævintýrum. Í dag fræðir hún fólk um streitu og seiglu en hana skortir sjálfa ekki seigluna. Kristín þurfti að hætta að vinna sem sjúkrahúslæknir vegna veikinda af völdum rakaskemmda en horfir björtum augum til framtíðar og er full af nýjum hugmyndum.
Hún hefur fetað nýjar leiðir í lífinu og finnur sig vel í því að fræða fólk um streitu og seiglu. Hún viðurkennir að lífins vegur hefur ekki alltaf verið beinn og breiður, eða eins og hún segir: „Lífið er svo hlykkjótt.“
Eftir nám og störf í Bretlandi og fimm ár á Íslandi ákvað fjölskyldan að flytja til Kanaríeyja, en manni Kristínar, Geir Þráinssyni, hafði verið boðið spennandi starf þar ytra.
„Mér fannst svo mikill hraði og ofgnótt í þjóðfélaginu þarna í góðærinu og erfitt að ala drengina upp við þetta gildismat, þannig að ég var mjög tilbúin að fara út í nýtt ævintýri, læra nýtt tungumál og gefa strákunum tækifæri á að búa erlendis. Upphaflega ætluðum við að vera eitt ár og sjá svo til en árin urðu sjö.“
Fjölskyldan settist að í spænsku borginni Las Palmas á Gran Canaría-eyju.
„Ég byrjaði á að koma strákunum fyrir og fara í spænskunám,“ segir Kristín og nefnir að dvölin hafi verið mikið ævintýri. Drengirnir þrír fundu sig vel í fótbolta sem leiddi þau á mót úti um allt; bæði á mörgum eyjum Kanaríeyja og uppi á meginlandi Spánar, m.a. í La Macia Barcelona-fótboltaþorpinu.
Fljótlega fóru þó verkefnin að banka upp á sem hentuðu Kristínu vel.
„Þarna voru íslenskar útgerðir sem stunduðu veiðar undan ströndum Afríku og þær fóru að leita til mín, en stundum urðu slys eða veikindi um borð í skipunum, eða gæta þurfti að þeim sem lögðust inn á spítala í Las Palmas. Þannig að ég hellti mér þarna út í sjávarútvegslæknisfræði. Ég tók að mér ýmis verkefni og átti þá mörg ævintýrin. Ég var send til Máritaníu til að taka út heilbrigðiskerfi þar, en athuga þurfti hversu vel væri hægt að sinna þar veikum eða slösuðum sjómönnum. Það þurfti að meta hvaða staðir kæmu best til greina til að taka á móti sjúklingum, og meta hvenær þyrfti að kalla út her, sjúkraflug eða þyrlu,“ segir Kristín og nefnir að þá hafi komið sér vel sú reynsla sem hún hafði eftir að hafa unnið sem þyrlulæknir á Íslandi, ein fárra kvenna sem því starfi hafa gegnt. Einnig hafði Kristín á árum áður kennt í Stýrimannaskólanum og í Slysavarnaskóla sjómanna.
Eitt sinn var Kristín send til Marokkó þar sem hún átti að taka á móti slösuðum sjómanni og fylgja honum í sjúkraflugi til Las Palmas þar sem læknisþjónustan var mun betri en vænta mætti í Marokkó. Það átti eftir að verða minnisstæð ferð.
„Ég var á leiðinni í skólann með strákana þegar ég fékk símtal. Skipið var úti á miðunum með meðvitundarlausan sjómann sem hafði lent í slysi. Þetta hljómaði mjög illa og jafnvel það illa að viðkomandi ætti varla möguleika á að lifa. Mér fannst meiriháttar hvað útgerðin var tilbúin til að gera allt til þess að bjarga þessum manni og þegar svona stóð á var ekkert til sparað,“ segir hún.
„Þessi sjómaður var með mikla höfuð- og andlitsáverka og innvortis meiðsl meðal annars. Mér var sagt að fara af stað með flugvél sem beið út á velli. Ég gat komið við á læknastofu og kippt með einhverju smávegis en annars var ég ekki með neitt í höndunum. Síðan átti að redda hjúkrunarfræðingi og læknabúnaði, en við flugum af stað til Marokkó og það þurfti að sigla á móti skipinu, stökkva á milli skipa og ná í manninn. Flugvélin beið svo til að ferja hann yfir til Las Palmas,“ segir Kristín og útskýrir að maðurinn hafi verið settur beint úr bátnum í sjúkrabíl sem átti að keyra á flugvöllinn. En í stað þess að beygja inn á flugvöllinn beygði bílstjórinn í hina áttina, í átt að sjúkrahúsi.
„Ég sagði honum að sjúkraflugið væri klárt, hann ætti að keyra á flugvöllinn. Hann myndi ekki lifa það af að fara á þennan spítala; hann þyrfti miklu meiri aðstoð. En þeir þóttust ekki skilja mig en enginn þarna skildi ensku eða spænsku. Þetta snerist hjá þeim um peninginn; þeir vildu fá sjúklinginn inn á spítalann til að fá peninginn,“ útskýrir hún.
„Þeir stoppuðu við spítalann og það mætti þarna mannfjöldi til að reyna að rífa sjúklinginn út úr bílnum. Ég lagðist á börurnar. Ég var líkamlega að berjast gegn þeim og hugsaði ekkert út í það að þarna var ég kona í arabaríki,“ segir hún.
„Það komu alltaf fleiri og fleiri og þarna voru mikil öskur og læti á arabísku. Ég neitaði að láta þau fá þennan meðvitundarlausa mann. Að lokum náðu þeir í lækni sem talaði frönsku. Þá allt í einu braust fram franska, sem ég hafði ekki notað síðan í menntaskóla,“ segir Kristín, sem fékk að lokum sitt fram.
„Ég hafði tekið frönsku í menntó þegar allir mínir vinir tóku þýsku, bara af því ég vildi gera eitthvað öðruvísi en aðrir. Og ég trúi því að þessi eina ákvörðun mín, að haka við frönsku í stað þýsku, hafi orðið til þess að bjarga mannslífi.“
Þótt útlitið hafi verið svart náði maðurinn sér. „Það var algjört kraftaverk að hann skyldi lifa af; það var enginn sem bjóst við því. En hann náði sér og fór meira að segja aftur til starfa síðar. Eina sem breyttist var að hann varð grænmetisæta og varð heldur léttari í skapi. Hann sendir alltaf jólakort og hefur gefið okkur koníak og fleiri fallegar gjafir frá sínu heimalandi, Úkraínu.“
Þegar Kristín kom heim réð hún sig í 70% starf á endurhæfingardeild Landspítalans og hugðist taka vaktir á slysadeild á móti. Hún fann sig vel á endurhæfingadeildinni og gat vel hugsað sér að vinna þar áfram. Það varð lítið úr vöktunum á slysadeild því Kristín fór að upplifa endurtekin flensulík einkenni.
„Fyrst var þetta eins og flensa og svo úthaldsleysi, sem ég skildi ekki því ég var ekki byrjuð að taka vaktir og aðeins með eitt kalltæki. Ég hélt kannski að ég væri að fá flensu af því ég væri nýkomin frá Spáni. Ég var þurr og rauð í augum og þurr í hálsinum og fór að fá hálsbólgur og útbrot og fleiri einkenni. Það varð alltaf erfiðara fyrir mig að hlaupa eða stunda ræktina sem ég skildi ekki því ég var í fantaformi. En ég mætti alltaf í vinnuna því ég er af þeirri kynslóð sem mætir bara í vinnuna sama hvað, sem er auðvitað rangt,“ segir hún.
„Einn daginn var okkur sagt að taugasálfræðingarnir væru svo veikir að við þyrftum að skipta um herbergi við þá; það væri svo mikil mygla,“ segir Kristín og segist þá í fyrsta skipti hafa farið að hugsa um hvort veikindi hennar gætu mögulega verið tengd þessum rakaskemmdum.
„Eftir nokkra mánuði var mér ekkert að batna en ég var að enn að vinna. Það tekur mann langan tíma að átta sig á þessu. Ég tók eftir því að ég var betri heima um helgar en það dró af mér í vinnunni. Um vorið var ég orðin verulega veik, en hélt að þetta myndi lagast í sumarfríinu. En þegar ég kom aftur til starfa eftir sumarfríið varð ég enn verri, var hreinlega orðin talmóð og ég lagðist einfaldlega í rúmið með verstu flensu ævinnar. Svo kom í ljós að fleiri voru veikir,“ segir Kristín og það kom á daginn að húsnæði Landspítalans var víða illa farið af rakaskemmdum.
„Ég hélt að ég myndi bara lagast og hélt að ég yrði bara frá vinnu í eina viku meðan á viðgerðum stæði. Ég gerði mér enga grein fyrir þessu. Ég reyndi að fara niður á slysadeild og fékk strax einkenni og ég prófaði fleiri staði en fékk alls staðar einkenni. Þetta var hrikalegt ár. Það tók mig heilt ár að átta mig á því að ég gæti ekki farið aftur að starfa sem læknir á spítalanum,“ segir hún.
„Það var mikil sorg að kveðja ástríðuna mína, læknisstarfið. Þetta var skellur.“
Síðan eru liðin um fimm ár og Kristín hefur ekki setið auðum höndum, þótt veikindin hafi tekið sinn toll og sett henni skorður. Kristín varð að sætta sig við að það væru margir staðir sem hún gæti alls ekki farið né unnið á sökum rakaskemmda húsnæðisins. Eftir að hún hætti á spítalanum fór hún í leiðsögunám í endurmenntunardeild Háskóla Íslands.
„Ég er svo mikil Pollýanna í mér að ég hef ekki lagst í reiði. Ég meira að segja neita að hugsa um mig sem veika, heldur segi ég bara eins og er, að ég þoli ekki sumt húsnæði. Þá forðast ég það bara og geri allt sem ég get til að halda mér hraustri. Ég var líka lánsöm að áður en ég veiktist var ég rosalega hraust og gat hlaupið upp hvaða fjall sem er. Fyrst var ég mjög svekkt og sorgmædd að hafa misst þessa hreysti mína. En það breyttist og seinna varð ég þakklát fyrir að hafa í raun verið svona hraust áður, því það hefur hjálpað mér að þola veikindin betur. Ég horfi á það sem ég hef og er þakklát fyrir að vera með svona góða fjölskyldu og vini, hreyfigetu og að geta stundað útivist.“
Kristín er nú í hlutastarfi við heilsurannsókn hjá þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna (ÞR) fyrir Íslenska erfðagreiningu en einnig kennir hún læknanemum.
„Fólk kemur Í ÞR og er hjá okkur hálfan dag í alls konar heilsurannsóknum,“ segir hún en auk þess hefur Kristín síðastliðin ár beint kröftum sínum enn meira að heilsueflingu og forvörnum og flutt vinsæl erindi um seiglu og streitu.
„Ég hef alltaf verið í fræðsluhlutverkinu og lengi haft áhuga á streitu og fundist hún heillandi. Streitan hjálpar okkur að þola áskoranir, breytingar og hættur. En hún á ekkert að vera alltaf í gangi!“ segir Kristín.
Við förum að slá botninn í samtalið en ekki er úr vegi að spyrja hvað sé á dagskrá á næstunni hjá þessari orkumiklu konu, sem þó hefur þurft að hægja á sér.
„Ég lifi að mestu í núinu en mig langar að vera virk og geta tekið þátt. Mig langar að halda áfram að læra og fylgjast áfram með fjölskyldu og vinum. Ég lifi einn dag í einu, en mér er samt alltaf að detta eitthvað nýtt í hug.“
Ítarlegt viðtal við Kristínu er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.