Ein mesta rýrnun jökla á Íslandi á einu ári

Fremst er Ok, sem var jökull en er það ekki …
Fremst er Ok, sem var jökull en er það ekki lengur. Í baksýn er horft til Þórisjökuls, sem gæti einnig horfið líkt og fleiri íslenskir jöklar ef loftslag heldur áfram að hlýna eins og spáð er. mbl.is/RAX

Flatarmál íslenskra jökla hefur minnkað um tæplega 800 ferkílómetra síðan árið 2000 og tæplega 2.200 ferkílómetra frá lokum 19. aldar. Á síðasta ári var rýrnun þeirra ein sú mesta sem mælst hefur á einu ári.

Rýrnun jöklanna er ein helsta afleiðing og skýrasti vitnisburður um hlýnandi loftslag hérlendis. Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi á vegum verkefnisins „Hörfandi jöklar“ sem er samvinnuverkefni Veðurstofu Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs.

Verkefnið er fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og unnið í samvinnu við Jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskólans og Náttúrustofu Suðausturlands.

Af þeim jöklum sem mældir eru af sjálfboðaliðum Jöklarannsóknafélags Íslands hopuðu Hagafellsjökull eystri í Langjökli og Síðujökull og Tungnárjökull í Vatnajökli mest á síðasta ári. Breiðamerkurjökull hörfar aftur á móti hraðast þar sem kelfir af honum í Jökulsárlón.

Breytingar á jaðri Breiðamerkurjökuls frá lokum 19, aldar.
Breytingar á jaðri Breiðamerkurjökuls frá lokum 19, aldar. Kort/Veðurstofa Íslands

Jarðskorpuhreyfingar vegna massataps jöklanna

Massatap jöklanna veldur hröðu landrisi vegna þess hve seigja möttulefnisins undir Íslandi er lítil, segir einnig í fréttabréfinu.

Við Höfn í Hornafirði er landris nú 10 til 15 millimetrar á ári og hefur hraði þess tekið talsverðum breytingum á undanförnum tveimur áratugum vegna breytileika í afkomu jökulsins. Við vesturjaðar Vatnajökuls rís land enn hraðar, þar sem rishraðinn mælist allt að 40 millímetrar á ári.

Flugsýn af tungu Skálafellsjökuls 1989 og 2019. Myndirnar byggja á …
Flugsýn af tungu Skálafellsjökuls 1989 og 2019. Myndirnar byggja á ljósmyndum sem teknar voru úr flugvél 1989 og flygildi 2019 og landlíkönum sem reiknuð voru á grundvelli myndanna og sýna vel lækkun yfirborðs jökulsins á 30 ára tímabili. Veðurstofa Íslands/Kieran Baxter, Háskólanum í Dundee.

Afkoma jöklanna mjög neikvæð árið 2019

Samhliða hlýnun loftlags á Íslandi frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar rýrnuðu jöklar hratt, eða að jafnaði um 1 metra vatns á ári eða meðaltali á tímabilinu 1997 til 2010.

Eftir árið 2010 hafa köld og blaut sumur komið inn á milli þannig að meðalrýrnun áranna 2011 til 2018 var ekki nema þriðjungur til helmingur þess sem hafði verið í rúman áratug þar á undan.

Sumarið 2019 var hlýtt víðast og sólríkt enda rýrnuðu jöklar þá um 1,5 metra vatns, sem er með því mesta sem mælst hefur. Nánar má fræðast um verkefnið Hörfandi jöklar hér.

Uppfært klukkan 16:56: Í fyrri útgáfu kom fram að rýrnun jöklanna á síðasta árið hefði verið sú mesta á einu ári. Hið rétta er að hún er ein sú mesta. Þetta hefur verið leiðrétt og beðist er velvirðingar á þessum mistökum.

Árleg og uppsöfnuð afkoma Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls frá upphafi …
Árleg og uppsöfnuð afkoma Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls frá upphafi mælinga á hverjum jökli samkvæmt gögnum Jarðvísindastofnunar Háskólans, Landsvirkjunar og Veðurstofu Íslands. Þessir jöklar geyma yfir 95% af rúmmáli íss í jöklum landsins. Taflan sýnir vatnsgildið, þ.e. dýpi vatnslags sem dreift væri yfir jökulinn. Graf/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert