Að öllu óbreyttu hefst verkfall félagsmanna Eflingar í Kópavogi, á Seltjarnarnesi og fleiri sveitarfélögum á hádegi á morgun. Verkfallið mun taka til fólks sem sér um ræstingar í fjórum af 21 leikskóla og fjórum af níu grunnskólum í Kópavogi og ljóst þykir að þeir munu þurfa að loka fljótlega aftur eftir að eðlilegt skólahald hefst.
Tilslökun á samkomubanni hér á landi tók gildi á miðnætti og eru engar takmarkanir á starfsemi leik- og grunnskóla.
„Ég ætla ekki að spá neinu,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is. Samninganefnd Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga funda í húsakynnum ríkissáttasemjara síðdegis. Ljóst er að ef ekki næst til lands á þeim fundi hefst verkfall á morgun.
„Við förum þarna inn og vonum að eitthvað gerist. Ég ætla að vera hóflega bjartsýn,“ segir Sólveig Anna.
Verkfallið er boðað hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi. Það hófst í síðasta mánuði en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.
Efling krefst þess að fá sams konar samning og félagið gerði við Reykjavíkurborg, fyrir sömu störf. Efling hefur einnig náð fram sambærilegri leiðréttingu í samningum við ríkið og Faxflóahafnir. Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga býður sama samning og samið hefur verið um við Starfsgreinasamband Íslands.