Segir mikla hættu af grjóthruni úr hlíðinni

Grjóthrun úr Súðavíkurhlíð.
Grjóthrun úr Súðavíkurhlíð. Ljósmynd/Aðsend

Stórt grjót sem rann úr Súðavíkurhlíð í fyrrinótt skemmdi bæði dekk og felgu bíls sem var ekið á það. Á meðan verið var að skipta um dekkið hrundi meira grjót niður úr fjallinu. Í framhaldinu þurfti að hreinsa grjót af veginum með vinnuvélum.

Þetta nefnir Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, sem dæmi um þá hættu sem stafar af grjóthruninu.

Þegar frostinu sleppir losnar iðulega um grjót sem hangir utan á hlíðinni, að sögn Braga Þórs, og það hefur einmitt gerst að undanförnu. Í þó nokkur skipti hefur orðið tjón á bílum sem hafa ekið á grjót. Stundum eru grjóthnullungarnir stórir og geta vegið nokkur hundruð kíló.

Búið er að hafa samband við Vegagerðina sem er að skoða málið.

Grjóthrun úr Súðavíkurhlíð.
Grjóthrun úr Súðavíkurhlíð. Ljósmynd/Aðsend

Bragi Þór bendir á samantekt sem hann fékk frá Vegagerðinni 15. apríl þar sem kom fram að Súðavíkurhlíðin hefði lokast í á fjórða tug skipta vegna snjóflóða frá áramótum með tilheyrandi innilokun fyrir íbúa, enda kemst enginn um Djúpveg á meðan. Sveitarstjórinn segir að einhverjar varnir hafi verið útbúnar til að hafa hemil á snjóflóðum og grjóthruni en þær dugi skammt. Flestir séu orðnir langeygir eftir jarðgöngum á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.

„Ég held að flestir séu á því að þótt fólk hafi sloppið býsna vel í gegnum tíðina frá snjó- og grjóthruni þá held ég að tölfræðin segi að á endanum fari einhver eða einhverjir.“

Hann bætir við að að minnsta kosti tvívegis í vetur hafi þurft að flytja sjúklinga sjóleiðina frá Súðavíkur til Ísafjarðar vegna þess að hlíðin hafi verið lokuð. „Það er mjög vont að þurfa að vera án læknisþjónustu þegar svona er.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert