Sig mælst í kjölfar landrissins

Jarðskorpan jafnar sig eftir landris.
Jarðskorpan jafnar sig eftir landris. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dregið hefur verulega úr skjálftavirkni við fjallið Þorbjörn og um miðjan aprílmánuð lauk landrishrinu þar, en dregið hafði úr henni í byrjun mánaðarins. Bendir þetta til þess að kvikuinnflæði undir Þorbjörn sé lokið í bili, að því er segir á vef Veðurstofunnar.

Bent er þar á að í kjölfar landrissins hafi mælst sig, sem útskýra megi með því að jarðskorpan jafni sig þar sem kvikan í innskotunum kólni og dragist saman.

„Þrátt fyrir að ekki mælist lengur landris við Þorbjörn, gætir enn dálítilla landbreytinga á stærra svæði. Eins og þróun atburða hefur verið síðustu mánuði verður að gera ráð fyrir þeim möguleika að kvikuinnskot við vestanverðan Reykjanesskaga haldi áfram á næstu misserum,“ segir á vef stofunnar auk þess sem tekið er fram að áfram verði fylgst vel með þróun mála á Reykjanesskaga.

Tryggi innanstokksmuni

Vísindaráð almannavarna, sem kom saman á fjarfundi í lok apríl, hvetur fólk til þess að fara yfir heimili og vinnustaði til að tryggja óstöðuga innanstokksmuni.

Áhrifa jarðskjálfta, í hrinu eins og nú gangi yfir, geti gætt á öllum Reykjanesskaga og þá sé höfuðborgarsvæðið ekki undanskilið.

„Jarðskjálftahætta á Reykjanesi er viðvarandi og því þarf alltaf að huga að forvörnum vegna hennar. Besta leiðin til þess að koma í veg fyrir tjón eða líkamsmeiðsl er að ganga vel frá húsgögnum og öðrum innanstokksmunum þannig að þau falli ekki ef jarðskjálfti ríður yfir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert