Rithöfundasamband Íslands (RSÍ) er að gera könnun á meðal félagsmanna sinna um reynslu höfunda af viðskiptum þeirra við sænsku hljóðbókaútgáfuna Storytel.
„Könnunin er nýfarin út og stendur í nokkra daga í viðbót,“ sagði Karl Ágúst Úlfsson, formaður RSÍ.
Spurður um almenna reynslu rithöfunda af Storytel kvaðst Karl Ágúst ekki geta sagt til um hana. „Þetta er svolítið flókið fyrirkomulag. Rithöfundar semja yfirleitt ekki beint við Storytel heldur fer það oft í gegnum útgefendur. Ég geri frekar ráð fyrir því að fólk komi misjafnlega vel út úr þessum viðskiptum, en þetta segi ég án ábyrgðar,“ segir Karl Ágúst í umfjöllun um mál þettaa í Morgunblaðinu í dag.