Skortir vilja til að nálgast raunveruleikann

Aldís Hafsteinsdóttir.
Aldís Hafsteinsdóttir.

„Það ber mikið á milli og það virðist ekki vera neinn vilji hjá viðsemjendum okkar að skoða hvernig samið hefur verið við aðra og nálgast þann raunveruleika,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, um kjaraviðræður milli Sambandsins og Eflingar í samtali við mbl.is.

Sáttafundur samninganefnda Eflingar og SÍS hjá Ríkissáttasemjara bar ekki árangur og var honum slitið fyrr í kvöld. Verkfall félagsmanna Eflingar í Kópavogi, á Seltjarnarnesi og fleiri sveitarfélögum hefst því á hádegi á morgun.

Efling segir Samband íslenskra sveitarfélaga neita að gera kjarasamning við félaga Eflingar sambærilegan þeim sem ríkið, Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir hafa gert.

„Okkur er ókleift að semja við þau þar sem kröfur þeirra eru langt umfram það sem við höfum samið um við aðra starfsmenn sveitarfélaga. Við erum búin að semja við rúmlega 40 félög og í þeim eru um 7.000 starfsmenn sveitarfélaga þannig að það er alveg útilokað að við getum með einhverjum hætti samið um annað og miklu meira við Eflingu en við höfum þegar samið um,“ segir Aldís.

Útilokað að fallast á kröfur Eflingar

„Það er búið að meta tilboð Sambands íslenskra sveitarfélaga á rétt tæp 30% og það er í samræmi við það kostnaðarmat sem við höfum fengið á samninga Eflingar við Reykjavíkurborg og ríkið,“ bætir hún við.

Segir hún mjög sérstakt að krefjast núna 10,3% aukalega umfram það sem aðrir hafi fengið og að kröfur Eflingar hljóði þá upp á um 40% hækkun á launum á samningstímabilinu. Það sé útilokað.

„Það er alveg útilokað að við getum samið við þennan fámenna hóp um eitthvað allt annað en við höfum samið um við alla aðra starfsmenn sveitarfélaga sem eru í Starfsgreinasambandinu og bæjarstarfsmannafélögum.“

Hefur ekki kallað eftir lagasetningu

Í tilkynningu sem Efling sendi frá sér eftir að fundinum var slitið fyrr í kvöld segir að Aldís hafi kallað eftir því að lög verði sett á verkfallsaðgerðir Eflingar. Aldís segir það ekki rétt.

„Ég hef einu sinni minnst á að lög væru möguleiki. En ég var ekki að kalla eftir því enda lít ég ennþá svo á að samningsaðilum beri skylda til þess að reyna ná lendingu í þessari kjaradeilu,“ tekur hún fram og bætir við:

„Aftur á móti liggur það augum uppi að lagasetning er eitt af þeim verkfærum sem stundum hafa verið notuð. En ég hef ekki kallað eftir því heldur bara sagt að það væri möguleiki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert