Sundlaugar opnaðar 18. maí

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir á fundinum í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir á fundinum í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Stefnt er að því að opna sundlaugar fyrir almenning 18. maí. Þessu greindi Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir frá á blaðamannafundi.

Þessi ákvörðun er háð því hvernig framvinda kórónuveirunnar verður á næstunni. Ekki er tímabært að kynna nánar hvernig framkvæmdin verður en það verður kynnt formlega með auglýsingu.

Ekkert nýtt smit greindist síðasta sólarhringinn hér á landi. Aðeins 66 virk smit eru í samfélaginu og væntanlega fáir í samfélaginu með veiruna sem ekki er vitað er um, að sögn Þórólfs.

Þrír liggja á Landspítalanum en enginn á Akureyri. Enginn er á gjörgæslu og enginn í öndunarvél. Varðandi  mat á faraldrinum sagði Þórólfur að tilfellin séu mjög fá og að samfélagslegt smit virðist vera mjög lítið.

„Við erum ekki komin í mark, við erum aðeins að pústa,“ bætti hann við og fór svo yfir faraldurinn hérlendis. Hann sagði hann hafa farið hraðar upp en gert var ráð fyrir og tilfellin hafi verið fleiri fyrstu dagana en búist var við. Með samstilltu átaki og góðum árangri hafi verið hægt að bæla faraldurinn hraðar niður en hann hélt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert