Þríeykið tók út aðstæður á Alþingi

Það gæti verið langt í að það megi sitja svona …
Það gæti verið langt í að það megi sitja svona þétt í þingsal á nýjan leik. Mynd frá þingfundi í desember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma D. Möller landlæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn könnuðu aðstæður í þinghúsinu vegna breytinga á samkomutakmörkunum sem tóku gildi á miðnætti.

Þetta tók Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, fram í upphafi þingfundar í dag. Hann sagði að að búið væri að gera ráðstafanir á Alþingi til þess að sem flestir þingmenn og ráðherrar geti verið viðstaddir þingfundi á sama tíma og sóttvarnalæknir hafi gefið ráð varðandi útfærsluna.

Þríeykið svokallaða, Víðir, Þórólfur og Alma.
Þríeykið svokallaða, Víðir, Þórólfur og Alma. Ljósmynd/Lögreglan

Skoða þráðlaust atkvæðagreiðslukerfi

Meðal aðgerða sem gripið hefur verið til á Alþingi til að koma þingstörfum í eðlilegra horf hefur þingfundarsvæðið nú verið stækkað. Efrideildarsalurinn ásamt báðum herbergjum austur og vestur af þingsalnum, sem kölluð eru skjalaherbergi og ráðherraherbergi eru nú hluti af þingfundarsvæði.

„Setið verður í öðru hverju sæti í þingsalnum og bil milli sæta og í hliðarsölum tekur mið af nálægðarreglunni. Sætaskipan er frjáls, þingmenn eiga ekki fast sæti í þingsal eða í hliðarherbergjum. Ráðherrar hafa einir afnot af ráðherrabekkjum og viðbótarsæti fyrir þá eru í skjalaherbergi,“ sagði Steingrímur á þingfundi í dag.

Atkvæðagreiðslur verða áfram með sama sniði og síðan samkomubann var sett á, þ.e. þingmenn munu ganga í þingsal einn í einu og greiða atkvæði. Steingrímur bætti því við að verið væri að skoða möguleika á þráðlausu atkvæðagreiðslukerfi og niðurstöðu þeirrar skoðunar væri að vænta innan skamms.

Sneri aftur eftir baráttu við krabbamein

Rýmkanir á fjöldatakmörkunum samkoma voru ekki einu gleðifréttirnar á Alþingi í dag. Áður en Steingrímur gerði grein fyrir nýju fyrirkomulagi við þingfundi bauð hann Þórunni Egilsdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, velkomna aftur til starfa. Þórunn greindist með krabbamein á síðasta ári og tók sér frí frá þingstörfum.

Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er kominn aftur til starfa eftir …
Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er kominn aftur til starfa eftir að hafa verið frá í ár eftir að hún greindist með krabbamein. Af Alþingisvefnum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert