Guðni Einarsson Baldur Arnarson Þóroddur Bjarnason
Unnið er að samkomulagi viðskiptabankanna við Seðlabankann vegna brúarlána til fyrirtækja í rekstrarvanda. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka miðar vinnu þeirra vel. Ein tillagan snýr að því að lánin geti verið til allt að 30 mánaða.
Íslandsbanki hefur tekið við umsóknum frá um 500 fyrirtækjum sem hafa sótt um greiðsluhlé til allt að sex mánaða. Það er í samræmi við samkomulag Samtaka fjármálafyrirtækja um tímabundinn greiðslufrest á lánum fyrirtækja vegna heimsfaraldurs Covid-19. Af þeim umsóknum sem Íslandsbanki hefur afgreitt hefur innan við 3% verið hafnað.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, telur að verslanir á Íslandi muni almennt ekki þurfa á brúarlánum að halda. Þorri þeirra muni enda standa af sér kórónuveirufaraldurinn. „Ástandið hefur gerbreyst. Verslunin er með nokkrum undantekningum að sigla í rétta átt,“ segir Andrés og bendir á aukna netverslun. Það kalli á fjölgun starfsmanna.
Jafnframt hafi ferðabannið í för með sér að stór hópur fólks sem verslaði erlendis versli nú heima. Hins vegar sé þungt undir fæti hjá mörgum verslunum í miðborginni. Þær hafi margar gert út á erlenda ferðamenn á síðustu árum, að því er rfam kemur í Morgunbaðinu í dag.