Bretar hafa barina en á Íslandi „snýst allt um sundlaugarnar“

„Bretar hafa barina sína og Frakkarnir kaffihúsin. En hjá Íslendingum snýst þetta allt um sundlaugarnar.“ Á þessum orðum hefst umfjöllun AFP-fréttastofunnar um mikilvægi sundlauga hér á landi sem nú eru galtómar sökum kórónuveirufaraldursins. 

Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá hvernig umhorfs er í Laugardalslaug þessa dagana, en þar er til að mynda búið að tæma steinapottinn og nýta tímann til að fjarlægja skakka varðturninn. 

Sundlaugum var lokað þegar hert samkomubann tók gildi 23. mars en til stendur að opna þær á nýjan leik 18. maí. 

 „Við erum alin upp í þeirri menningu að sækja sundlaugarnar í ýmsum tilgangi svo ég held að þetta krefjist mikillar aðlögunarhæfni hjá mörgum,“ segir Hulda Bjarkar sundkennari sem rætt er við í innslaginu. Nefnir hún sem dæmi eldri borgara sem eru reglulegir gestir sundlauganna, ekki síst á morgnana. 

Róbert Albert Spanó, eftirlaunaþegi, er einnig á meðal viðmælenda og segir hann það erfitt að komast ekki í sund þessa dagana. „Þetta er hluti af okkar lífi. Ég nýt þess að fara í sund þegar það snjóar, rignir, er kalt, mér er alveg sama. Ég nýt þess. Þetta er mjög hollt fyrir mig.“ 

Galtóm Laugardalslaug.
Galtóm Laugardalslaug. mbl.is/Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert