Vegagerðin hefur ákveðið að setja upp díóðuljós með 25 metra millibili á vegakantana í Hvalfjarðargöngum til að leiðbeina ökumönnum.
Hefðbundnar vegstikur eru núna í göngunum. Þær verða fljótt skítugar og sjást ekki vel þegar ekið er með lágu ljósin.
Fram kemur í frétt á vef Vegagerðarinnar að díóðuljós (LED-ljós) séu Norðfjarðargöngum og hafi þeim verið mjög vel tekið. Ljósin gagnist einnig sem rýmingarlýsing ef reykur kemur í göngin. Búið er að opna tilboð í verkið og var Orkuvirki ehf. Reykjavík með lægsta tilboð. Áætlað er að hefja verkið í september, eftir mesta umferðartímann, og á því að ljúka í nóvember.