Slökkviliðið á Vík í Mýdal og Brunavarnir Rangárvallasýslu var kallað út um níuleytið í kvöld eftir að eldur kom upp í fjárhúsi. Skepnur voru í húsinu þegar eldurinn kom upp en þeim var bjargað og engum mönnum varð meint af.
Þetta staðfestir fulltrúi lögreglunnar á Suðurlandi í samtali við mbl.is.
Fyrsta tilkynning um eldinn barst klukkan 20:47 en rétt rúmum klukkutíma síðar var verið að slökkva í síðustu glæðum eldsins. Á tímabili var óttast að eldurinn myndi dreifa sér í nálægt íbúðarhús en komið var í veg fyrir það.