Krefjast þess að fá að opna 18. maí

Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class.
Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class. mbl.is/​Hari

Líkamsræktastöðvar á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið sig saman og skrifað bréf sem var sent til sóttvarnarlæknis í gær þar sem farið er fram á að þær fái að opna á sama tíma og sundlaugar, 18. maí.

Að sögn Björns Leifssonar, framkvæmdastjóra World Class, er í bréfinu bent á hversu mikið af fólki kemst ekki í vinnuna sína á stöðvunum. Það hljóti að vega þungt þegar ríkissjóður er að borga 75% laun þeirra. Hann segir að starfsfólkið á bak við bréfið telji vel á annað þúsund manns, fyrir utan alla viðskiptavinina sem komast ekki í líkamsrækt.

Fylgja ekki sundlaugum eins og talað var um

Björn segir tjónið vegna kórónuveirunnar gríðarlegt fyrir líkamsræktarstöðvar, bæði fyrir eigendur, starfsfólk og viðskiptavini. „Það er verið að tala um lýðheilsu. Hvað er betra en að hreyfa sig til að efla mótstöðuvarnir líkamans?“ spyr Björn og bendir á að ekki nenni allir að fara út að hlaupa.

Hann nefnir að í upphafi hafi verið talað um að opna staði aftur með öfugum hætti miðað við lokun sem hefði þýtt að líkamsræktarstöðvar og sundlaugar hefðu opnað fyrst. Því hafi svo verið breytt. Talað hafi verið um að sund og líkamsrækt yrðu ekki slitin í sundur en því hafi svo verið breytt. „Ég er verulega ósáttur við þetta,“ segir hann og bætir við að smitin séu orðin nánast engin. „Hvernig eigum við að smitast ef enginn er til að smita okkur?“

Þessi ljósmynd var tekin í World Class kvöldið fyrir lokun …
Þessi ljósmynd var tekin í World Class kvöldið fyrir lokun líkamsræktarstöðva. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fáránleg ráðstöfun“

Björn segir að áður en líkamsræktarstöðvar lokuðu hafi verið passað mjög vel upp á sóttvarnir og að slíkt yrði að sjálfsögðu gert áfram þegar þær opna aftur. Hann skilur ekki hvers vegna sundið fær að opna á undan og segir að hægt sé að loka búningsklefunum á líkamsræktarstöðvum en ekki í sundlaugum. Einnig segir hann markhópinn eldri hjá sundlaugum og því fari áhættuhópurinn frekar þangað en til þeirra. Í sundi snerti fólk skápa, hurðarhúna, sápuskammta og ýmislegt fleira.

„Þetta [að fara á líkamsræktarstöðvar] er það eina sem þú mátt ekki gera á Íslandi eftir 18. maí. Þú mátt fara á bar, í tattú, í sund og nudd. Okkur finnst þetta allt mjög óskiljanlegt. Það er fáránleg ráðstöfun að leyfa okkur ekki að opna,“ segir hann og nefnir að fyrirtæki hans sé stærsta fjöldahreyfingin á Íslandi og telji um 50 þúsund viðskiptavini. Þrátt fyrir þennan fjölda hafi stjórnvöld fundað með íþróttahreyfingunni en ekki þeim. „Allur fótboltinn til samans nær ekki þessum fjölda. Það er verið að trufla líf ansi margra.“ 

Björn Leifsson hefur síðustu áratugi byggt upp World Class-veldið.
Björn Leifsson hefur síðustu áratugi byggt upp World Class-veldið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hagsmunagæsla ákveðinna hópa

Hann bætir við að hagsmunaaðilarnir sem krefjast þess að fara í sund, golf og fótbolta séu sterkari en þeir hjá líkamsræktarstöðvunum. Til dæmis þurfi bæjarfélög að fá sínar tekjur frá sundlaugunum. Því snúist málið um hagsmunagæslu ákveðinna hópa.

Spurður út í undirskriftasöfnun sem farin er af stað til að hvetja til opnunar líkamsræktarstöðva, segist hann jafnframt vera mjög ánægður með hana. Hún sýni óánægju viðskiptavina með stöðu mála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert