Óraunhæft að telja að veiran sé horfin

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi dagsins.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi dagsins. Ljósmynd/Lögreglan

Sóttvarnalæknir ítrekaði að það yrði að fara hægt í afléttingu á takmörkunum sem settar hafa verið á vegna kórónuveirunnar þó vel hafi gengið síðustu daga. Ekkert smit hefur greinst hér á landi síðustu þrjá daga og einungis 39 eru með virk smit.

Þrátt fyrir góðan árangur og mjög fá smit undanfarna daga sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi að það þyrfti að bíða í tvær til þrjár vikur eftir hvert skref afléttinga en næsta skref er áætlað 25. maí.

Hins vegar er mögulegt að lagt verði til að taka stærri skref í hvert sinn.

„Það er óraunhæft að telja að þessi veira sé horfin,“ sagði Þórólfur og bætti við að tíminn á milli skrefa væri mikilvægur.

Hann sagði að vissulega væri álitamál hversu hratt eigi að aflétta takmörkunum og engin ein rétt uppskrift í þeim málum. Hins vegar eru allir sammála um eitt; það megi ekki fara of hratt í tilslakanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert