Sanngjarnt að tekjuhærri greiði hærri sektir

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, vill að hér verði …
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, vill að hér verði tekið upp sambærilegt fyrirkomulag og í Finnlandi hvað varðar sektargreiðslur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eigum við ekki að vera sanngjörn og réttlát og taka upp finnsku leiðina, að sekta í prósentum launa, ekki krónutölum,“ spurði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, samstarfsmenn sína á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins.

Guðmundur benti á að nú væri kominn sá tími að sektir vegna notkunar á nagladekkjum utan leyfilegs tíma væru orðnar 20 þúsund krónur á dekk. Það þýði sekt upp á 80 þúsund krónur ef allir fjórir hjólbarðar ökutækis eru negldir.

„80 þúsund krónur af 200 þúsund krónum í útborguðum launum eru 40 prósent. Af 400 þúsund krónum launum eru það 20 prósent. Af 800 þúsund krónum launum eru það 10 prósent. Er það sanngjarnt?“ spurði Guðmundur og svaraði spurningunni sjálfur neitandi.

Ef virðing er borin fyrir réttlæti þá verði að breyta þessu

„Ef sá sem er með 800 þúsund krónur útborgað greiðir einnig 40 prósent af sínum launum í sekt fyrir að vera með fjögur nagladekk undir bílum ætti hann að borga samkvæmt þessu 320 þúsund krónur. Myndi hann sætta sig við það? Ég held ekki,“ bætti hann við.

Hann lagði því til að hér á landi yrði tekið upp sama fyrirkomulag og í Finnlandi þar sem að sektir taka mið af launum, það sé sanngjarnt því sektir séu ekkert annað en gjöld til ríkisins.

„Því miður erum við ekki bara með þetta í sektargreiðslum, við ætlum að setja og erum með þetta líka í veggjöldum, við erum með þetta í fasteignagjöldum og ýmsum öðrum gjöldum. Ég held að kominn sé tími til að ef við viljum og ætlum að bera einhverja virðingu fyrir réttlæti og lýðræði breytum við þessu þannig að það sé sanngjarnt að allir greiði jafnt,“ sagði Guðmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert