Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók í dag fyrstu skóflustunguna að nýjum íbúðarhúsum í Gufunesi. Þorpið vistfélag byggir 137 íbúðir á þessu nýja uppbyggingarsvæði sem er í tengslum við skapandi iðnað, frumkvöðlastarfsemi og menningu.
„Það er sérstakt fagnaðarefni að fyrsta verkefnið sem ætlað er að fjölga hagkvæmum íbúðum á viðráðanlegu verði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur sé að fara af stað,” segir Dagur í tilkynningu.
„Alls verða þessi fjölbreyttu verkefni níu um alla borg og heildarfjöldi íbúða verður yfir fimm hundruð. Hugsunin er sú að þessi verkefni byggi á nýrri hugsun og hafi það öll að markmiði að gera húsnæðismarkaðinn fjölbreyttari. Til viðbótar er frábært að sjá fyrstu íbúðirnar í Gufunesi rísa en svæðið er nýtt íbúðahverfi og spennandi atvinnusvæði skapandi greina,“ segir hann.
Þetta eru fyrstu nýbyggingarnar í þessu nýjasta hverfi borgarinnar og eru þær á sjávarlóð nyrst í Gufunesi með útsýni yfir Geldinganes og Viðey. Yrki Arkitektar sáu um hönnun og verktaki framkvæmdarinnar er Eykt.
Framkvæmdir hefjast næstu daga og byggt verður upp í áföngum. Í fyrsta áfanga eru 45 íbúðir, 41 íbúð í öðrum áfanga og 51 íbúð í þeim þriðja. Afhenda á fyrstu íbúðirnar í maí á næsta ári og ljúka uppbyggingunni allri í maí ári síðar. Íbúðir Þorpsins eru úr verksmiðjuframleiddum einingum sem styttir byggingartímann og lækkar kostnað.
Reykjavíkurborg úthlutaði lóðinni í tengslum við verkefni sitt um Hagkvæmt húsnæði, þar sem sérstaklega er horft til þarfa ungs fólks og fyrstu kaupenda og er Þorpið fyrsti byggingaraðilinn til að hefja framkvæmdir innan verkefnisins. Ódýrustu íbúðir Þorpsins verða til sölu á innan við 20 milljónir króna.