Breyta hlutabótaleið til að hindra misnotkun

Hlutabótaleiðin var ekki sett á laggirnar svo að stöndug fyrirtæki …
Hlutabótaleiðin var ekki sett á laggirnar svo að stöndug fyrirtæki gætu nýtt hana til að greiða niður launakostnað um leið og arður væri greiddur eða eigin bréf keypt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hlutabótalögum verður breytt til að koma í veg fyrir að vel stæð fyrirtæki nýti sér hana til þess að greiða niður laun starfsmanna sinna segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Fyrirtækin Skeljungur, Hagar og Össur hafa nýtt sér hlutabótaleiðina eftir að hafa greitt hluthöfum sínum arð eða keypt eigin bréf. RÚV greinir frá þessu.

Katrín segir að hlutabótaleiðin verði framlengd með lagabreytingu og þá verði sett inn skilyrði til að mynda hvað varðar arðgreiðslur og kaup á eigin bréfum. Hún segir að það hafi verið ljóst að þegar hlutabótaleiðin var sett á laggirnar að það hafi verið gert á miklum hraða og fyrst og fremst hugað til að tryggja lífsafkomu fólks og viðhalda ráðningarsambandi.

Það hafi verið ákveðið að hafa úrræðið opið til þess að engar hindranir væru sem kæmu í veg fyrir það markmið en að ætlunin hafi að sjálfsögðu ekki verið sú að „stöndug fyrirtæki væru að nýta sér þetta neyðarúrræði til að greiða niður laun sinna starfsmanna“.

Greiddu arð og keyptu eigin bréf

Fréttablaðið greindi frá því í dag að Hagar og Skeljungur hafi bæði keypt eigin bréf samhliða því að nýta hlutabótaleiðina. Skeljungur hafi að sama skapi greitt 600 milljónir króna í arð í apríl. Áður hefur verið greint frá því að á aðal­fundi Öss­ur­ar 12. mars hafi verið ákveðið að greiða eig­end­um fyr­ir­tæk­is­ins 1,2 millj­arða króna í arð. Stuttu síðar var 165 starfsmönnum Össurar boðið að fara í 50% starf og nýta sér hlutabótaleið stjórnvalda.

Mbl.is hefur reynt að ná tali af Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Skeljungs og Jóni Ásgeiri Jónssyni, stjórnarformanni Skeljungs í dag án árangurs. Erna Gísladóttir, stjórnarformaður Haga, vildi ekki veita viðtal.

Fréttin var uppfærð klukkan 13:39.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert