Ryk í Hvalfjarðargöngunum er stórt vandamál. Rykið kemur fyrst og fremst á veturna og orsakast af sliti á malbiki, til dæmis vegna nagladekkja. Talið er að eitt tonn af ryki geti losnað úr malbiki á einni viku á naglatímanum.
Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.
„Almenn grunnregla er að þvo og sópa ryki í göngum fremur en að blása því. Blásararnir í göngunum blása að vísu fínasta rykinu, sótmenguninni, en mikið síður stærri kornum sem bílar þyrla upp en detta svo fljótt niður,“ segir á vefnum. Þar fer Gísli Eiríksson, forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar, yfir helstu endurbætur sem ráðist hefur verið í síðasta eina og hálfa árið. Listinn er langur og ljóst að starfsmenn Vegagerðarinnar hafa ekki setið auðum höndum.
Eftir að Vegagerðin tók við rekstri ganganna var ákveðið að þvo meira en gert hafði verið og minnka heldur blástur. Núna eru göngin þvegin fjórum sinnum á ári, mismikið í hvert sinn, í stað tvisvar sinnum áður. Yfir 100 rúmmetrar af vatni hafa verið notaðir í hverjum þvotti.
Í vetur var farið með sérstakan götusóp með kraftmikilli ryksugu í göngin vikulega. Sópnum er ekið fram og til baka og báðar akreinar sópaðar. Samkvæmt vigt bílsins nær hann upp meira en hálfu tonni í hvert sinn.
Þegar Vegagerðin tók við rekstri ganganna kom í ljós að göngin voru ekki tengd við umhverfi með ljósleiðara þrátt fyrir að ljósleiðarastrengir lægju í gegn um þau. „Þetta kom kom aðeins á óvart, til dæmis voru göng undir Breiðadals- og Botnsheiði tengd við stjórnstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði árið 1996 um ljósleiðara.“
Í stað þess voru göngin tengd við Akranes á sérstöku örbylgjusambandi sem er sagt lítið notað í dag. Vegagerðin tengdi göngin strax við ljósleiðarakerfi á Hvalfjarðarströnd og örbylgjusamböndin lögð niður.
Rarik tók við rekstri háspennukerfis í göngunum en í þeim eru fjórar spennistöðvar og 11 kV strengur á milli þeirra. Kerfið var áður í eigu Spalar, fyrrum rekstraraðila Hvalfjarðarganganna, og sá um rekstur á því en um rekstur háspennukerfis gilda strangar reglur.
Þróunin hefur verið sú að í öðrum íslenskum jarðgöngum eiga dreifiveitur spennana þó að rekstraraðili viðkomandi ganga hafi greitt fyrir þá í upphafi. Rarik samþykkti að taka við rekstrinum gegn því að Vegagerðin kostaði viðgerð á spennunum.