Samningafundi Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hófst hjá ríkissáttasemjara klukkan 18 lauk rétt eftir klukkan 21. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofustjóra ríkissáttasemjara hefur nýr fundur verið boðaður á laugardag klukkan 10.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í samtali við mbl.is að hún hafi ekki meira að segja að sinni, annað en að samningaviðræður haldi áfram um helgina. Gert er ráð fyrir rúmum fundartíma, eða til klukkan 17 síðdegis á laugardag.
Ótímabundið verkfall 260-270 félagsmanna Eflingar, sem vinna hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi hófst á þriðjudag.
Efling hefur sakað Samband íslenskra sveitarfélaga um að neita að gera kjarasamning við félagsmenn Eflingar sambærilegan þeim sem ríkið, Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir hafa gert við stéttarfélagið.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari sagði í vikunni að til greina komi að gera samning til skamms tíma til að leysa deiluna.
Fréttin hefur verið uppfærð.