Undirbúa endurbætur á kísilverksmiðjunni

Kís­il­verk­smiðja Stakks­berg í Helgu­vík sem áður var í rekstri und­ir …
Kís­il­verk­smiðja Stakks­berg í Helgu­vík sem áður var í rekstri und­ir nafni United Silicon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fé­lagið Stakk­berg ehf. undirbýr endurbætur á fyrsta áfanga kísilverksmiðjunnar í Helguvík en við hönnun þeirra er lögð sérstök áhersla á að lágmarka lyktaráhrif, enda ljóst að íbúar Reykjanesbæjar hafa af þeim miklar áhyggjur.

Þetta kemur fram í frummatsskýrslu um endurbætur á kísilverksmiðju Stakksberg í Helguvík, þar sem áður var rekstur undir nafni United Silicon. Áhyggjur íbúa komu meðal annars fram í samráði sem Stakksberg hafði við almenning við vinnslu skýrslunnar.

Kynning á skýrslunni hefst á morgun og mun hún liggja frammi frá 8. maí til 26. júní á bæj­ar­skrif­stofu Reykja­nes­bæj­ar, í Þjóðar­bók­hlöðunni og hjá Skipu­lags­stofn­un.

Endurbætur fela í sér framkvæmdir á lóð, breytingar á núverandi byggingum og nýbyggingar, uppsetningu á skorsteini til að bæta dreifingu útblásturs og varða einnig meðhöndlun hráefna, ljósbogaofn og afsogskerfi verksmiðjunnar. 

Framkvæmdir vegna endurbóta á kísilverksmiðju Stakksbergs í Helguvík fela í sér 4,5-5 milljarða króna fjárfestingu. Áætlað er að framkvæmdir geti hafist á fyrsta ársfjórðungi 2021, taki um 14 mánuði og muni á því tímabili skapa 70-90 bein störf.

Þegar fyrsti áfangi verksmiðjunnar verður kominn í rekstur er gert ráð fyrir að þar muni starfa um 80 manns. Að auki er gert ráð fyrir að vegna umsvifa verksmiðjunnar muni skapast á bilinu 120 til 160 afleidd störf, meðal annars vegna kaupa á ýmiskonar þjónustu.

Seinni áfangar fela í sér fjölgun ljósbogaofna í allt að fjóra með stækkun ofnhúss og nýjum mannvirkjum.

Sagt er að markmið með framkvæmdunum sé verið að lágmarka umhverfisáhrif vegna reksturs verksmiðjunnar og stuðla að því að starfsemin megi verða í sátt við íbúa svæðisins.

Auk þessi eigi að gera allar þær úrbætur, sem nauðsynlegar eru til að uppfylla skilyrði Umhverfisstofnunar um breytingar og viðbætur á búnaði fyrir endurræsingu verksmiðjunnar, bæta gæði framleiðsluferilsins og vinnuumhverfi starfsmanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert