Í vikunni fór fólk að mæta aftur til vinnu eftir nokkurn tíma heima í fjarvinnu en þó að þar með séu hjól atvinnulífsins komin aftur af stað er ekki það sama að segja um hjól strætisvagna bæjarins, sem snúast alls ekki á sama snúningi og fyrir kórónuveirufaraldur.
Strætó gengur enn eins og það væri laugardagur þegar fyrir flestum er kominn virkur dagur. Þetta veldur upplausn í kerfinu fyrir marga farþega og sem vitað er getur það að komast ekki leiðar sinnar á ögurstundu komist langleiðina með að skemma fyrir manni daginn.
„Ég get ekki verið að byrja daginn minn á að mæta fjörutíu mínútum of seint í vinnuna og vera þar síðan þeim mun lengur og enda á að vera til hálfsex í vinnunni,“ segir Thomas Brorsen Smidt, verkefnisstjóri við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. Hann ferðast að jafnaði daglega úr Mosfellsbæ til vinnu í Vesturbænum en tvo daga í röð lenti hann í því að festast í hálftíma í Ártúni af því að hann náði ekki í tengistrætóinn í tæka tíð.
„Ég gæti verið búinn að klára fyrsta verk dagsins heima á þessum tíma ef það væri ekki fyrir þessar hroðalegu samgöngur, og þarna er ég orðinn seinn, og það er svo mikið að gera!“ segir Thomas.
Thomas er ekki einn. Hann segist hafa stofnað Facebook-þráð fyrir lítinn hóp vina þar sem hann ræddi þessa örvæntingu sína og að þar hafi fjölmargir haft sömu sögu að segja, að strætóar séu að leggja af stað áður en farþegarnir koma úr öðrum tengdum leiðum. „Það rigndi inn kommentum, þannig að ef þetta væri opinber færsla fyrir allri alþjóð get ég rétt ímyndað mér hversu margir eru að lenda í þessum vandræðum,“ segir hann.
„Þetta er ekki bara í Ártúni heldur úti um allt. Allir sem búa ekki í 101 eða 107 og þurfa að ferðast inn í bæinn til vinnu úr úthverfum eru að festast á stoppistöðum, eins og til dæmis einnig í Mjódd. Strætóarnir eru að leggja af stað án þess að bíða eftir tengingunum, sem er einmitt það sem kerfið á að gera,“ segir Thomas.
Ofan á þetta segir hann bætast að engin skilvirk leið er til þess að koma svona misgengi á framfæri við Strætó, fólki sem hringir sé bara bent á ábendingadálk á vefsíðunni. Úrræðaleysið sé stundum slíkt þegar maður sér að maður er að missa af strætó, þarf að biðja vagnstjórann í vagninum sem maður er í um að flauta á hinn til að fá hann til að staldra við.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó bs., segir að beint sé til vagnstjóra að reyna að gæta þess að tengingar náist en reglan sé þó að þegar vagn á leið sé orðinn seinn geti hann ekki látið aðra leið „draga hann niður.“ Keðjan togar úr hinni áttinni, þar sem fleiri farþegar bíða eftir vagninum.
Að sögn Guðmundar hefur vandinn aukist eftir að samkomutakmörkunum var aflétt, enda fór umferðin að þyngjast nokkuð við þá breytingu. „Á meðan samkomubannið var í hámarki gengu í raun allar tengingar mun betur enda var önnur umferð svo lítil. Í raun var það orðið svo að vagnar þurftu að gæta sín að fara ekki á undan áætlun. Núna hef ég hins vegar verið að heyra frá vagnstjórum að þetta sé að þyngjast,“ segir Guðmundur.
Enn er ekið eftir laugardagsáætlun, sem þýðir að fjöldi vagna kemur aðeins á hálftímafresti jafnvel á háannatíma. „Við erum að fylgjast vel með aðsókninni og þegar við finnum að fólk er að koma til baka getum við bætt í. Tekjurnar hafa auðvitað hrapað, þannig að við fækkum ferðum, en um leið koma minni tekjur inn vegna færri ferða. Þetta er því fínt jafnvægi en við tökum stöðuna núna aftur næstu mánaðamót. Í ágúst er síðan búist við að kerfið verði komið í algerlega samt horf,“ segir Guðmundur.
Mánuðirnir þangað til verða því að líkindum einn langur laugardagur í strætókerfinu, nema hvað leið 1 er þegar farin að fara með kortersmillibili á morgnana, enda gáfu fjöldamælingar Strætó tilefni til þess. Neytendasamtökin hafa þá bent á að vegna færri ferða vagna geti fjöldi farþega í hverjum vagni fyrir sig orðið of mikill til þess að halda megi tveggja metra regluna.