Verkfall farið að hafa talsverð áhrif á skólastarf

„Við höldum úti skólastarfi með ákveðnum takmörkunum þar sem meirihluti …
„Við höldum úti skólastarfi með ákveðnum takmörkunum þar sem meirihluti þeirra sem sjá um þrif í skólunum eru félagsmenn Eflingar,“ segir Baldur Pálsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá Seltjarnarnesbæ, í samtali við mbl.is.

Verkfall félagsmanna Eflingar er þegar farið að hafa talsverð áhrif í þeim sveitarfélögum sem það tekur til. Mest eru áhrifin í Kópavogi þar sem loka hefur þurft fjórum grunnskólum og fjórum leikskólum. Þá er skólastarf verulega skert í Seltjarnarnesbæ, en í Mosfellsbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi er von á að verkföllin fari fljótlega að hafa áhrif.

Samninganefndir Efl­ing­ar og Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga hittust á fundi hjá ríkissáttasemjara klukkan 18 en síðast var fundað í deil­unni á mánu­dag. 

„Við höldum úti skólastarfi með ákveðnum takmörkunum þar sem meirihluti þeirra sem sjá um þrif í skólunum eru félagsmenn Eflingar,“ segir Baldur Pálsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá Seltjarnarnesbæ, í samtali við mbl.is. 

Eitthvað í skólanum í hverri viku

Alls starfa 23 félagsmenn Eflingar hjá bænum, en verkfallið hefur mest áhrif á grunnskólann þar sem fimm starfsmenn sem sjá um þrif eru í verkfalli. Þar er miðað við að nemendur fái að mæta eitthvað í skólann í hverri viku og er áhersla lögð á útiveru, íþróttir og skólasund, og nemendur í 10. bekk fá forgang.

Þá eru starfsmenn í heimaþjónustu hjá Seltjarnarnesbæ í verkfalli, en þar er einn starfsmaður á undanþágu hverju sinni til að sinna lyfjagjöf.

Verkfallið er enn ekki farið að hafa merkjanleg áhrif á starfsemi Mosfellsbæjar, en í Sveitarfélaginu Ölfusi er fyrirséð að það muni fara að hafa áhrif á leikskólann strax í næstu viku. „Þetta eru mjög víðtæk áhrif sem verkfall af þessu tagi hefur þó það séu fáir sem fara í verkfall. Mest verða áhrifin ef þetta dregst á langinn, þá verða áhrifin mest í leikskólum hjá okkur,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri í samtali við mbl.is.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Elliði segir aðallega miður að Efling geti ekki tekið þátt í samtalinu um hvernig hægt verði að verja lífskjarasamningana í því sem stefnir í að verða dýpsta efnahagslægð þjóðarinnar.

Áhyggjur af lífskjarasamningi

„Við erum að reyna að verja grunnþjónustuna og við erum að reyna að erja störf þeirra sem hjá okkur starfa,“ segir Elliði. „Við finnum að starfsmenn hjá okkur óttast ástandið, ef til þess kemur að lífskjarasamningarnir flosna upp og landið fer að loga í deilum á vinnumarkaði þegar við erum að takast á við efnahagslægð.“

Síðast en ekki síst segist Elliði finna hvað verkfallið veldur mikilli röskun fyrir foreldra og börn, sem hafi upplifað mikla lífsgæðaskerðingu vegna kórónuveirufaraldursins án þess að átta sig almennilega á því. „Við höfum við áhyggjur af því að geta ekki veitt þeim þessa mikilvægu þjónustu, svo við erum vissulega að vona að þetta dragist ekki á langinn og samningsaðilar sýni því skilning að við erum í þröngri stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert