Umsóknum um aðstoð til Hjálparstarfs kirkjunnar fjölgaði um 58,4% í mars og apríl síðastliðnum miðað við sama tíma í fyrra.Síðustu tvo mánuði hafa 564 fjölskyldur sem búa við fátækt fengið aðstoð, borið saman við 356 fjölskyldur á þessum tíma á síðasta ári.
Aðstoðin fólst aðallega í inneignarkorti fyrir matvöru. Hjálparstarf kirkjunnar aðstoðar fólk einnig við lyfjakaup í neyðartilfellum og fjölgaði beiðnum þar um þá aðstoð sömuleiðis. Félagsráðgjafar hafa aðlagað þjónustuna eftir því sem aðstæður hafa breyst í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins og bjóða nú fólki sem er í viðkvæmri stöðu að hafa samband símleiðis eða með tölvupósti.
„Við finnum að fólk er mjög kvíðið og viðtölin við hvern og einn sem hingað leitar eru því lengri og við fylgjum fólkinu betur eftir en áður. Það er nauðsynlegt að hlusta á fólk í þessu óvissuástandi og veita því sálrænan stuðning,“ segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfsins, í tilkynningu frá stofnuninni.
„Við sjáum líka þá erfiðu aðstöðu sem útlendingar sem ekki tala íslensku eru í núna,“ segir hún enn fremur.