Ferðagjafabréf sem má nota heima

Gunnuhver. Landsmenn eru hvattir til að ferðast innlands í sumar, …
Gunnuhver. Landsmenn eru hvattir til að ferðast innlands í sumar, en gjafabréf sem þeir fá í því skyni geta þeir þó notað í heimabæ sínum vilji þeir það. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hver einasti einstaklingur eldri en átján ára með íslenska kennitölu fær afhent gjafabréf fyrstu vikuna í júní sem nemur rúmum 5.000 íslenskum krónum. Það gjafabréf getur hann nýtt á hótelum, gistiheimilum, afþreyingafyrirtækjum, bílaleigum og veitingastöðum á Íslandi í sumar.

Notkunin mun, samkvæmt upplýsingum frá ferðamálaráðuneytinu, ekki skilyrðast af búsetu notandans, þannig að í raun verður hægt að nota þetta hvar sem er. Enn á eftir að koma í ljós hvort notkunin muni einskorðast við fyrirtæki með sérstök ferðaþjónustuleyfi en það skýrist þegar umsóknir frá fyrirtækjum fara að berast.

Hægt að gefa öðrum inneignina

Þeir sem sjá ekki fram á að nýta sína inneign geta flutt hana yfir á aðra einstaklinga. Það verður hægt að sækja inneignina inn í smáforrit í símanum, þar sem hver og einn fær sérstakan kóða. Eigi menn ekki snjallsíma geta þeir líka fengið kóðann sendan í gegnum netið. 

Miðstöð verkefnisins verður ferdalag.is en þar mun íslenskum fyrirtækjum einnig bjóðast að gefa eigin starfsfólki ferðagjafir, sem bætist þá við inneignir viðkomandi. Þannig verður í raun hægt að safna inneign í ferðagjöfina, annaðhvort með að fá frá vinnuveitanda eða taka við inneignum frá öðrum.

Kostnaðurinn við ferðagjöfina nemur 1,5 milljarði, sem deilist niður á alla eldri en átján. Það verða rúmlega 5.000, eins og komið hefur fram. Ferðaþjónustufyrirtæki þurfa að skrá sig til þátttöku og geta þá samhliða kynnt tilboð sem þau kunna að vilja bjóða upp á til að höfða til neytenda. Vonir standa til að töluvert verði um slík tilboð sem þannig auki virði inneignanna, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert