Greina smit án sýnatöku

Sýnatökur hófust af fullum krafti á Íslandi í febrúar en …
Sýnatökur hófust af fullum krafti á Íslandi í febrúar en samhliða þeim hafa læknar greint fólk með Covid-19 á grundvelli einkenna og samskipta við aðra sýkta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til eru þeir Íslendingar sem hafa verið greindir með Covid-19 en hafa aldrei farið í sýnatöku fyrir veirusjúkdómnum. Það þarf ekki alltaf til, heldur er í sumum tilfellum látin duga klínísk athugun á grundvelli líkinda, að sögn Más Kristjánssonar yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Landspítalans.  

Sé tekið dæmi getur klínísk athugun af þessum toga farið þannig fram hjá sjö manna fjölskyldu að veikindi eru staðfest með sýnatöku hjá tveimur en einfaldlega ályktað um veikindi hjá restinni, það er að segja ef þau sýna sömu einkenni. Þannig er gengið út frá því að þau hafi fengið sjúkdóminn, án þess að endanlega sé gengið úr skugga um það með sýnatöku.

Þessi aðferð er í raun svo viðurkennd að í sumum tilvikum, eins og hjá manni sem mbl.is ræddi við en lætur ekki nafns síns getið, er athugun og ályktun látin vega jafnmikið ef ekki meira en eiginleg sýnataka. Kona þessa manns greindist og veiktist og hann líka en sýnataka á honum kom neikvæð út. Engu síður sagði læknirinn hans við hann að hann hefði fengið veiruna en prófið hafi brugðist.

Ferð ekki inn í tölfræðina nema með sýnatöku

Að álykta um sýkingu á grundvelli athugana og einkenna segir Már Kristjánsson að sé „það sem klínísk smitsjúkdómalæknisfræði gengur út á.“ Það gildi alls ekki síður í faraldursástandi þar sem gott er að komast hjá þeim kostnaði og umfangi sem sýnataka hefur í för með sér.

„Oft getur maður einfaldlega vitað hvað um er að ræða á grundvelli klínískrar athugunar. Það er praxís sem við notum á hverju ári við alls konar öndunarfærasýkingar. Þá greinirðu fyrst nokkra sjúklinga með eiginlegri sýnatöku en ef þú færð síðan hóp með sömu einkenni, þá ráðið af líkindunum að um sama sjúkdóm sé að ræða,“ segir Már.

1801 hafa greinst formlega með Covid-19 á Íslandi en inni í þeirri tölu eru ekki þeir sem greinast með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. Sú staðreynd, svo og vitneskja um að ekki allir fái einkenni sem smitast, bendir til að fjöldi þeirra sem raunverulega hafi smitast af Covid-19 á Íslandi sé umtalsvert meiri en 1801.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert